Ísland heillar - lærði íslensku á netinu
Um áramótin hóf nám í VMA 17 ára stúlka frá Eistlandi, Gamithra Marga, sem ekki er í frásögur færandi nema fyrir það að áður en hún hóf nám sitt í skólanum hafði hún upp á sitt eindæmi – með því að finna allt sem hún gat fundið á netinu sér til hálpar - lært það mikið í íslensku að hún skilur bróðurpartinn af því sem við hana er sagt. Hún á lengra í land með talmálið en það kemur smám saman og sömuleiðis málfræðin.
„Ég hef verið afar upptekin af Íslandi í mörg ár. Ég minnist þess að í október 2012 las ég mikið um Ísland og fór að hlusta á íslenska tónlist,“ sagði Gamithra og síðan hefur hún í tvígang komið til Íslands, í seinna skiptið ferðaðist hún bakpokaferðalagi um landið í ágúst í fyrra og í kjölfarið ákvað hún að setjast á skólabekk hér. VMA varð fyrir valinu vegna þess að hún fékk húsaskjól á Akureyri og einnig höfðar skólinn mjög til hennar vegna þess að hann býður upp á fjölbreyttar námsleiðir. Það er nákvæmlega það sem Gamithra segir að henti sér vel, í Eistlandi séu framhaldsskólarnir sérhæfðari en í áfangakerfisskólum eins og VMA hafi hún möguleika að taka áfanga á ólíkum námsbrautum og það höfði mjög til sín. „Ég er mjög ánægð í skólanum og reyni að nýta tíma minn eins vel og ég mögulega get,“ segir Gamithra en foreldrar hennar og tólf ára bróðir búa í höfuðborginni Tallinn í Eistlandi. Áður en Gamithra hóf nám í VMA bjó hún reyndar ekki þar, þess í stað var hún í skóla í Tartu, næst stærstu borg landsins.
„Náttúran hér heillar mig og ekki síður fólkið,“ segir Gamithra og vonast til þess að geta lokið stúdentsprófi úr VMA.
Sem fyrr segir hefur Gamithra breitt áhugasvið. Forritun er eitt af því sem höfðar mjög til hennar og fyrr í þessum mánuði tók hún þátt í forritunarkeppni framhaldsskólanna með tveimur nemendum úr Menntaskólanum á Akureyri og lenti sameiginlegt lið skólanna í öðru sæti í keppninni, sem verður að teljast afbragðs árangur. Keppnin fór bæði fram í Háskólanum í Reykjavík og í Háskólanum á Akureyri og var þessi mynd tekin í HA. Gamithra situr fyrir miðri mynd. Hún tók einnig þátt í forkeppni fyrir Ólympíuleikana í forritun en endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir.