Úr Bárðardal til Valencia með viðkomu í VMA
Árið hefur í meira lagi verið viðburðaríkt hjá Bárðdælingnum Tryggva Snæ Hlinasyni. Hann brautskráðist sem stúdent frá VMA sl. vor og um síðustu jól útskrifaðist hann sem rafvirki. Á liðnu sumri var hann lykilmaður í U-20 landsliði Íslands í körfuknattleik og þar vakti framganga hans verulega athygli. Meðal annars var hann í viðtali við ESPN. Einnig kom Tryggvi Snær við sögu í A-landsliði Íslands í Evrópumótinu í Finnlandi síðsumars.
Hann var vart lentur á Fróni eftir Evrópumótið þegar nýr áskorun tók við; atvinnumennska í körfubolta hjá einu af sterkustu félagsliðum Evrópu, Valencia í samnefndri borg á Spáni.
Það er sannarlega gaman að rifja upp viðtal sem birtist hér á heimasíðunni við Tryggva Snæ fyrir um tveimur árum. Þá hafði hann vakið mikla athygli með körfuknattleiksliði Þórs á Akureyri í bikarleik gegn Íslandsmeisturum KR. Tryggvi Snær var þá um haustið að taka fyrstu stóru skref sín í körfubolta og þá þegar var ljóst að ástæða væri til að fylgjast með pilti í framtíðinni á körfuboltavellinum. Hann sagðist þá stefna að því að spila með A-landsliðinu sem heldur betur rættist en hins vegar gengu ekki eftir þau áform – a.m.k. ekki enn sem komið er – að fara í háskólanám til Bandaríkjanna og spila þar körfubolta. Þess í stað er hann nú kominn til Valencia á Spáni í atvinnumennsku.
Tryggvi Snær er afar sáttur við að vera kominn til Valencia, hann er þess fullviss að félagið sé það rétta til þess að hann nái að halda áfram að bæta sig sem körfuboltamaður. Hann segir leikmannahóp Valencia afar sterkan og mikil samkeppni sé um stöður í liðinu. Til að byrja með spili hann með B-liði félagsins og nýti tímann vel til þess að læra og bæta sig. Tryggvi Snær tók þátt í æfingaleik nýverið við lið í annarri deild spænska körfuboltans. „Það var mjög gott að fá að taka þátt í þessum leik og sjá hvar maður stendur. Ég veit vel að ég þarf margt að bæta og í því mun ég vinna með öllum þeim snillingum sem vinna hér í félaginu. Umgjörðin hér er auðvitað margföld á við það sem ég hef áður kynnst,“ segir rafvirkinn, stúdentinn og körfuboltamaðurinn Tryggvi Snær Hlinason.