Úr fjölmiðlafræði og sölumennsku í kokkanám
Óðinn Stefánsson, 34 ára gamall Akureyringur, er ekki einn um það að skipta um skoðun út í miðri á. Það er ekki ofsögum sagt að hann hafi tekið sannkallaða u-beygju í námi. Fór í fjölmiðlafræði og var hársbreidd frá því að klára hana en fór að lokum í kokkanám.
Óðinn brautskráðist af félagsfræðibraut frá VMA árið 2008. Eftir það starfaði hann hjá lítilli heildsölu í Reykjavík og notaði tímann til þess að átta sig á því í hvaða nám hann vildi fara. Niðurstaðan var fjölmiðlafræði í Háskólanum á Akureyri haustið 2009. Til hliðar við námið starfaði Óðinn sem sölumaður hjá heildsölunni O. Johnson & Kaaber. Undir lok námsins segist Óðinn hafa misst áhugann á fjölmiðlafræðinni, í raun eigi hann lítið eftir nema lokaritgerðina til þess að ljúka BA-námi í fjölmiðlafræði.
Óðinn fór út á vinnumarkaðinn og starfaði bæði í Reykjavík og á Akureyri sem sölumaður fyrir Ó. Johnson & Kaaber, samtals í áratug. Hjá fyrirtækinu störfuðu nokkrir matreiðslumenn sem seldu meðal annars stóreldhúsum vörur og þá kviknaði áhugi Óðins á að læra matreiðslu. Það varð úr, hann tók grunndeild matvæla í VMA sl. vetur og fór jafnframt á samning í matreiðslu hjá Bautanum. Þegar síðan var ákveðið að bjóða upp á annan bekkinn í matreiðslu í vetur í VMA innritaði Óðinn sig í hann og lýkur honum um jól. Eftir sem áður starfar hann á Bautanum og þarf að vinna töluvert til viðbótar á samningnum til þess að geta farið í þriðja bekkinn og lokið sveinsprófi. En þangað segist Óðinn stefna, matreiðslan sé skemmtileg og áhugaverð glíma. Þetta sé aksjónstarf og óneitanlega fylgi því oft álag, eins og í öðrum störfum, en stress upplifi hann þó ekki í starfinu.