Úr listnáminu í arkitektúr
Andrea Lind Jónsdóttir hafði lengi stefnt á að fara á listnámsbraut VMA því framtíðarmarkmiðið er að verða arkitekt. Hún er frá Ísafirði en flutti með fjölskyldunni til Akureyrar. Að loknum grunnskóla lá leiðin beint á listnámsbrautina.
„Já, ég hef átt mér þann draum að verða arkitekt síðan ég var tíu ára gömul. Ég hef alltaf heillast af byggingum og hafði snemma gaman af því að teikna og skapa eitthvað,“ segir Andrea Lind. „Ég lýk listnámsbrautinni í vor og þá ætla ég að taka mér eins árs hlé áður en ég innritast í arkitektúr. Ég hef ekki ákveðið enn í hvaða háskóla ég fer en ég stefni að því að fara út fyrir landsteinana. Ég tel að námið hér á listnámsbraut sé mjög góður grunnur fyrir arkitektúrinn. Námið hér hefur verið mjög áhugavert og kennararnir yndislegir. Og vinátta okkar nemendanna mun endast áfram. Þetta hefur verið skemmtilegur og gefandi tími,“ segir Andrea Lind.
Í áfanganum MYN 504 á haustönn vann Andrea Lind myndverkið sem hún stendur við á meðfylgjandi mynd. Hún lék sér með að mála andlit vinkonu sinnar á tréplötu og málaði síðan mynd af Rebekku systur sinni yfir. Og nafnið Insanity fannst Andreu Lind lýsa myndinni mjög vel.