Úr rafmagninu í kennsluna
Eftir að hafa starfað sem rafvirki í mörg ár ákvað Guðmundir Ingi Geirsson að söðla um sl. haust og kenna í fullri stöðu við rafiðnadeild VMA, en síðustu ár hefur hann komið þar eilítið við sögu sem stundakennari. Hann segist kunna því afar vel að kenna, gaman og gefandi sé að vinna með ungu fólki.
„Ég útskrifaðist sem rafvirki héðan frá VMA, ef ég man rétt árið 1989. Ég ætlaði mér að verða bóndi og byrjaði á því að fara í Bændaskólann á Hólum, enda eru báðir foreldrar mínir úr sveit og ég er að nokkru leyti alinn þar upp. Ég fór þó ekki að búa en rafvirkjunin varð þess í stað fyrir valinu. Var rúm tuttugu ár á Ljósgjafanum hér á Akureyri, í um sjö ár í heimilistækjaviðgerðum og síðustu tíu árin var ég mikið að þjónusta bændur. Ég starfaði síðan í eitt ár á olíuborpalli við Noreg, um tíma var ég ráðsmaður í Fremstafelli í Kinn og síðustu þrjú og hálft ár áður en ég kom í fullt starf í VMA starfaði ég sem rafvirki hjá Becromal hér á Akureyri. Ég tók kennsluréttindin í lotunámi í Háskólanum á Akureyri meðfram minni daglegu vinnu, ég vildi gjarnan afla mér nauðsynlegra réttinda til þess að hafa þann möguleika að fara að kenna einhvern tímann eftir fimmtugt. Það gerðist hins vegar fyrr en ég hafði áætlun um því ég hef kennt sem stundakennari hér síðustu ár og er sem sagt núna kominn í fulla stöðu. Ég kann því vel að kenna og kennslan á vel við mig, mér líkar alveg prýðilega að vinna með ungu fólki,“ segir Guðmundur Ingi.
Hann kvartar ekki yfir aðstöðunni sem rafiðnadeildin í VMA hefur yfir að ráða en segir að vegna niðurskurðar hins opinbera til skólanna sé orðinn mikill skortur á góðum verkfærumi. Þar þurfi að gera bragarbót. Mikilvægt sé að nemendur vinni með verkfæri sem séu notuð nú til dags og læri að nota þau í náminu. Á sama tíma og ríkið haldi að sér höndum í fjármagni til tækjakaupa í skólunum sé afar dýrmætt hversu mikinn og góðan hug rafiðnadeildin og skólinn almennt skynji hjá fjölda fyrirtækja sem láti skólanum í té ýmis tæki og tól sem brýnt sé að nota í kennslunni. „Ég get nefnt sem dæmi að nýverið fór frá okkur nemandi í verknám í eina viku hjá meistara í heimabyggð hans austur á landi. Meistaranum þótti þessi tengsl skólans og atvinnulífsins til mikillar fyrirmyndar og hann vildi endilega leggja okkur lið á móti. Hann ákvað að útvega deildinni tíu svokallaðar endahulsutangir, sem eru almennt notaðar nú til dags. Rafiðnadeildin átti hins vegar áður gamlar og úreltar tangir sem hætt er að nota úti á vinnumarkaðnum því ekki hafði fengist fjármagn til kaupa á nýjum.“
Guðmundur segir að ef hann beri saman nám í rafvirkjun þegar hann lærði á sínum tíma og fyrirkomulag námsins núna sé himinn og haf á milli. Í þá daga hafi öll verklega kennslan verið hjá meisturum úti í bæ og það hafi verið undir hælinn lagt hversu vel þeir stóðu að verklegri kennslu. Í skólanum hafi námið nær eingöngu verið bóklegt. Nú sé hins vegar stór hluti námsins verklegur, sem sé mikið og gott framfaraskref. „Þetta þýðir að nemendur fara út úr skólanum betur í stakk búnir til þess að takast á við fjölbreytt verkefni á vinnumarkaðnum. Skólinn leggur mikla áherslu á gott samstarf og tengsl við atvinnulífið sem gerir það að verkum að nemendur eru ágætlega upplýstir um þau fyrirtæki sem eru í þessum geira og hvaða heildsölur eru með rafmagnsvörur. Allt skiptir þetta miklu máli þegar nemendur koma út á vinnumarkaðinn.“
Guðmundur hikar ekki þegar hann er spurður hvort hann geti mælt eindregið með því að krakkar fari í rafiðn. „Já, alveg tvímælalaust. Þetta er gríðarlega góður grunnur og ofan á hann er hægt að byggja á ýmsan hátt. Það er mikilsvert að skilja og vita ýmislegt um rafmagn því það auðveldar nemendum að halda áfram í hvaða tækninámi sem er, ef þeir á annað borð kjósa að halda áfram námi. Ég hef sjálfur unnið mikið eftir raflagnateikningum og ég fullyrði að það er mun betra að vinna eftir teikningum sem eru unnar af þeim mönnum sem eru rafvirkjar í grunninn en þeim sem einungis hafa lært þessa hluti af bók,“ segir Guðmundur Ingi Geirsson.