Úr Rocky Horror í VMA í leiklist og mannrækt
Árið 2002 fetaði VMA inn á nýjar brautir í félagslífinu þegar nemendur í skólanum settu í fyrsta skipti upp söngleik. Það var ekki ráðist á lágan garð, Rocky Horror varð fyrir valinu í leikstjórn Þorsteins Backmanns. Sýningin var sett á svið í Ketilhúsinu á Akureyri. Einn af leikurum í sýningunni var Bjartur Guðmundsson, sem síðar lærði leiklist og er í dag þekktur fyrirlesari. Bjartur rifjar upp að þátttaka hans í Rocky Horror í VMA forðum daga hafi umpólað áformum um hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór. Hér má sjá umfjöllun Þorgeirs Tryggvasonar um sýninguna.
Akureyringurinn Bjartur Guðmundsson brautskráðist sem stúdent af íþrótta- og samfélagssviði VMA vorið 2004. Þegar hann lítur í baksýnisspegilinn segist hann ekki hafa á þessum tíma verið mjög áhugasamur nemandi og til marks um það hafi hann verið í sex ár í skólanum. Á fyrri hluta skólagöngunnar hafi hann horft til þess að fara á Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og verða íþróttakennari en þeim fyrirætlunum hafi snarlega verið ýtt út af borðinu eftir þá vitrun sem hann fékk við það að taka þátt í uppfærslunni á Rocky Horror árið 2002. Bjartur segist sannarlega ekki hafa verið á þeim buxum að taka þátt í leiklist í VMA enda hafi honum almennt þótt lítið til leiklistar koma. En félagi hans dró hann með sér í Rocky Horror leikhópinn enda væri þar fullt af sætum stelpum! Og löngunin til þess að kynnast sætum stelpum hafði sitt að segja, Bjartur lét slag standa og sá aldrei eftir því. Hann fékk leiklistarbakteríuna, tók þátt í Rocky Horror og einnig árið eftir, 2003, í uppfærslu nemenda VMA á Grease, einnig í leikstjórn Þorsteins Backmanns.
„Þetta kveikti í mér að læra leiklist. Því var ekkert um annað að ræða en hætta þessu hangsi og klára VMA. Mig langaði að komast í leiklistarnám í Listaháskólanum og það tókst í fyrstu tilraun, sem ég var mjög ánægður með. Síðan ætlaði ég klárlega að fara áfram í leiklistina og verða starfandi leikari. Það byrjaði ágætlega því ég lék Danny Zuko í Grease í uppfærslu í Loftkastalanum árið 2009,“ segir Bjartur en Ólöf Jara Skagfjörð fór með hlutverk Sandy í sýningunni.
Ekki löngu síðar segist Bjartur hafa lent nokkuð harkalega á vegg sem hafi gert það að verkum að hann hafi farið að vinna mikið í sjálfum sér, hellti sér í að kynna sér jákvæða sálfræði, íþróttasálfræði og mannrækt. „Þarna datt ég inn á efni sem hefur átt hug minn allan síðan. Ég fór að tileinka mér ýmislegt úr þessum fræðum og það var eins og við manninn mælt að mér fór að líða betur og almennt að ganga betur sem leikari. Ég fór síðan að vinna hjá Bláa lóninu sem fólst í því að auka upplifun gesta og í framhaldinu var ég fenginn til þess að halda fyrirlestra um hvernig líðan fólks hefur áhrif á frammistöðu og árangur. Í þessu fann ég mína hillu og hef meira og minna verið á henni síðan. Árið 2016 stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki sem ég kalla Optimize Performance og síðustu árin hefur starf mitt falist í því að vinna með fólki í því að hámarka frammistöðu, árangur og ánægju. Bæði hef ég verið með eigin námskeið og einnig er ég að vinna með fólki inn á vinnustöðum. Í það heila er ég líklega búinn að halda á fjórða hundrað námskeið. Covid-faraldurinn setti auðvitað strik í reikninginn en þetta er allt að fara í fullan gang aftur,“ segir Bjartur.
Bjartur minnist áranna í VMA með hlýju, enda hafi þau mótað hann og hvaða leið hann fór í lífinu. Að leiksýningunum frátöldum segir Bjartur að félagslífið hafi ekki verið upp á marga fiska en hann og vinur hans, Jóhann Níels Baldursson, hafi viljað hleypa lífi í félagslífið með uppákomum í Gryfjunni. „Þegar ég var að byrja í VMA voru bjórkvöld VMA-nema út í bæ nokkuð algeng og þau voru vel sótt. Hins vegar var ómögulegt að fá nemendur til þess að mæta á viðburði í skólanum. Við Jóhann Níels höfðum áhuga á því að halda trúbadorakvöld í Gryfjunni en það hafði enginn trú á því að nokkur einasti maður myndi mæta, frekar en venjulega. Við sögðum hins vegar að við myndum finna leið til þess að fá nemendur til þess að koma. Ég fór því upp á svið í Gryfjunni og sagði frá trúbadorakvöldinu, sem yrði þá um kvöldið, og í hléi yrði í boði bjór og pizzur! Þessi tilkynning náði engan veginn eyrum nemenda fyrr en þeir heyrðu „bjór og pizzur“. Þá lögðu allir við hlustir og við fundum að þetta vakti mikinn áhuga. Og það var eins og við manninn mælt, það varð húsfyllir í Gryfjunni um kvöldið! Tónlistarmenn stigu á svið og voru með sín atriði og síðan kemur að hléi og viðstaddir biðu spenntir eftir því sem ég hafði lofað fyrr um daginn. Ég hoppaði upp á svið og sagði: „Jæja, þið eruð væntanlega öll hingað komin til þess að fá ókeypis bjór og pizzu. Það er mér mikill heiður að fá að kynna á svið hljómsveitina „Ókeypis bjór og pizza í hléi“. Í þessari hljómsveit vorum við Jói félagi minn og við tókum nokkur lög, við vægast sagt takmarkaða hrifningu flestra viðstaddra!“