Væntanlegir útskriftarnemar vanda sig
„Þetta er afar flottur og skemmtilegur hópur,“ segir Hildur Salína Ævarsdóttir, kennari við hársnyrtibraut VMA, um þá tíu nemendur sem nú eru á fimmtu og síðustu önn við skólann og útskrifast í desember nk.
Nemendur voru annars vegar að vinna með módel í permanenti og hins vegar að æfa sig í blæstri og upprúllun. Hér má sjá nokkrar myndir sem sýna vinnu nemenda. Módel fá nemendur bæði innan skólans og utan. Leitað er til fólks að koma en aðrir sækja um að vera módel.
„Af þessum tíu nemendum sem eru nú á fimmtu og síðustu önn eru níu stúlkur og einn strákur. Öll eru búin með stærstan hluta námssamnings og flestir nemanna vinna á stofu jafnframt því að stunda námið," segir Hildur Salína.
Verklegi hlutinn er um 80% af námi á hársnyrtibraut en í það heila, með námssamningi, tekur námið um fjögur ár.
Nú eru 23 nemendur í hársnyrtideild, þar af 13 nýnemar. Hildur Salína segir að alltaf sé mikil ásókn í að komast í þetta nám en húsnæðið takmarki þann fjölda sem unnt sé að taka inn á hverju hausti. „Við fengum um fjörutíu umsóknir en gátum einungis tekið inn þrettán nemendur í haust. Við erum með fjórtán stóla hér og það takmarkar fjöldann sem við getum tekið inn,“ segir Hildur Salína.
Þess má geta að hársnyrtideild VMA er með fésbókarsíðu þar sem settar eru reglulega inn myndir úr starfi deildarinnar.