Var Nína Tryggvadóttir kommúnisti og hættuleg Bandaríkjunum?
Í dag, þriðjudaginn 31. janúar, kl. 17-17.40 verður sýnd í Ketilhúsinu upptaka af fyrirlestri Hallgríms Oddssonar, blaðamanns og hagfræðings, Ólöglegi innflytjandinn – var Nína Tryggvadóttir kommúnisti og hættuleg Bandaríkjunum? Í fyrirlestrinum rekur Hallgrímur baráttu Nínu fyrir landvistarleyfi í Bandaríkjunum.
Á 5. áratug síðustu aldar flutti Nína Tryggvadóttir til New York í Bandaríkjunum og skapaði sér nafn sem myndlistarkona. Þar kynntist hún þýsk-ættaða vísinda- og listamanninum Al Copley. Þau giftu sig árið 1949 og allt leit út fyrir að ungu hjónin kæmu sér fyrir á Manhattan, umkringd skapandi vinum í hringiðu listasenunnar. En það sem þau héldu að yrði praktísk afgreiðsla á formsatriðum, þegar Nína ætlaði að snúa til baka til New York eftir dvöl á Íslandi, varð fljótt að eldvegg sem aðskildi þau um árabil. Á Íslandi töldu ákveðnir aðilar að Nína væri kommúnisti og áður en yfir lauk teygði málið anga sína djúpt inn í bæði íslenskt og bandarískt stjórnmálakerfi. Hverjir voru þessir óvildarmenn Nínu? Er barnabókin Fljúgandi fiskisaga kommúnískur áróður sem beint er gegn bandarískum stjórnvöldum? Var Nína kommúnisti? Hvernig áhrif hafði álagið vegna aðskilnaðarins og langvarandi baráttu á líf og listamannsferil Nínu? Hallgrímur reifar þessar og fleiri spurningar og rekur einstaka baráttu Nínu og Al fyrir sameiningu fjölskyldunnar í Bandaríkjunum.
Þetta er annar þriðjudagsfyrirlestur ársins og verða þeir alla þriðjudaga á sama tíma til 21. mars nk. Aðgangur er ókeypis.