Vaskir kylfingar í VMA
Sveit VMA lenti í öðru sæti í árlegu golfmóti starfsfólks framhaldsskólanna, sem VMA hafði að þessu sinni umsjón með og var mótið haldið á Jaðarsvelli í blíðskapar veðri sl. laugardag.
Þetta árlega golfmót hefur verið haldið í áratug eða svo, jafnan á suðvesturhorni landsins en nú varð sú breyting á að það var í fyrsta skipti haldið hér norðan heiða.
„Þetta gekk frábærlega. Veðrið var eins og best verður á kosið og þátttakan var prýðileg, um fimmtíu manns tóku þátt að þessu sinni,“ segir Haukur Jónsson, kennari í VMA, kylfingur og einn skipuleggjenda mótsins.
Að golfmótinu loknu var kvöldverður að hætti Jóns Vídalíns, verts í Golfskálanum á Jaðri, og þar voru afhent verðlaun. Keppt var í karla- og kvennaflokki án forgjafar og einnig var sveitakeppni sem fólst í því að þrír með besta skorið frá hverjum skóla mynduðu sveit. Sveit Fjölbrautaskólans í Breiðholti sigraði með nokkrum yfirburðum og má sjá mynd af henni hér hampa sigurlaununum. Í öðru sæti varð sveit VMA en hana skipuðu valinkunnir kylfingar; Haukur Jónsson, Hinrik Þórhallsson og Hörður Óskarsson – sjá meðfylgjandi mynd. Í þriðja sæti varð síðan þessi vaska sveit Fjölbrautaskólans í Garðabæ.
Myndirnar lét Torfi Magnússon, kennari og kylfingur í FB, sem raunar var með besta skorið af öllum í mótinu, okkur í té og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.