Vatn er best - VMA og Þórduna gefa öllum nýnemum vatnsbrúsa
Verkmenntaskólinn á Akureyri er heilsueflandi framhaldsskóli sem þýðir m.a. að skólinn leggur áherslu á holla hreyfingu og að nemendur og starfsfólk skólans neyti hollrar fæðu og drykkja. Til þess að undirstrika þetta færðu skólinn og nemendafélagið Þórduna nýnemum í gær vatnsbrúsa sem er mikilvæg áminning um að allir ættu að drekka miklu meira vatn en það almennt gerir. Vatn er hollasti drykkurinn, um það þarf ekki að deila. Vatnsbrúsagjöfina kynnti Sigríður Huld skólameistari og stjórnarfólk í Þórdunu afhenti brúsana. Kristján Tómasson kennari flutti af þessu tilefni erindi um óhollustu orkudrykkja og hvernig fyrirtækið Red Bull beinir spjótum sínum sérstaklega að ungu fólki í markaðssetningu á orkudrykkjum sínum.
Ekki er vanþörf á að minna fólk á vatnsdrykkju. Í ágætri samantekt á Vísindavef Háskóla Íslands segir Magnús Jóhannsson, prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ, m.a. að hver fullorðinn maður þurfi 2-3 lítra af vatni á dag (í mat og drykk) til að bæta líkamanum upp vökvatap og gera nýrunum mögulegt að losa líkamann við sölt og úrgangsefni.
Neysla orkudrykkja, sem eru ríkir af koffíni, hefur stóraukist síðustu ár og þar eru framhaldsskólanemar engin undantekning. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að of mikil koffínneysla getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fólk og það á ekki síst við um ungt fólk á framhaldsskólaaldri. Ef koffíns er neytt í miklu magni getur það t.d. valdið hjartsláttartruflunum, hækkuðum blóðþrýstingi, höfuðverk, svima, ógleði, kvíða og haft neikvæð áhrif á svefn.
Sláandi niðurstöður komu fram í könnun sem gerð var fyrir tveimur árum á orkudrykkjaneyslu íslenskra grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólanema. Í ljós kom að 54% framhaldsskólanema á fyrsta ári drukku orkudrykki einu sinni eða oftar í viku. Neyslan jókst síðan með hækkandi aldri og þegar komið var upp í 3. bekk drukku 68% nemenda í þessu úrtaki orkudrykki reglulega. Á bilinu 30–44% nemenda sem drukku orkudrykki fóru yfir viðmiðunarmörk hvað koffínmagn varðar pr. kíló líkamsþyngdar á dag, sem hefur neikvæð áhrif á svefn. Því eldri sem nemendur voru því hærra hlutfall nemenda fór yfir þessi neikvæðu mörk varðandi svefn.
Nýnemar fengu sem sagt vatnsbrúsa að gjöf í gær en öðrum gefst kostur á að kaupa VMA/Þórdunu brúsa hjá Þórdunu. Einnig er vert að minna á að í dag hefur Þórduna sölu á hinum vinsælu VMA-peysum.