Gamalt handverk heillar
Guðbjörg Helga Aðalsteinsdóttir er nú á síðustu önn sinni til stúdentsprófs á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Hún er Húsvíkingur en hefur búið á Akureyri síðustu þrjú ár. Hún rifjar upp að hún hafi verið mjög óviss um hvað hún vildi læra að loknum grunnskóla. Til að byrja með fór hún í bóknám í Menntaskólanum á Akureyri og var þar í hálfan annan vetur, var síðan í hálfan vetur í Framhaldsskólanum á Húsavík en fyrir tveimur árum lá leiðin á listnáms- og hönnunarbraut VMA og þar segist hún hafa fundið sína fjöl á textíllínu.
„Ég hef verið í handavinnu frá því ég var lítil stelpa – að prjóna, hekla og sauma. Það var því engin tilviljun að ég fann mig í þessu námi. Hér hef ég meðal annars lært vefnað og það hefur verið mjög skemmtilegt. Hann hafði ég ekki prófað áður en hafði lengi verið forvitin um hann og langað að prófa, enda hef ég lengi haft áhuga á gömlu handverki. Vefnaður er mjög skemmtilegur og krefst nákvæmni og umtalsverðrar þolinmæði,“ segir Guðbjörg Helga og bætir því við að hún sjái hreint ekki eftir því að hafa farið þessa leið í námi, listnám til stúdentsprófs sé afar góður grunnur fyrir fjölmargt í framhaldinu.
Þegar hún var tekin tali var hún ásamt skólasystrum sínum á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar í vefnaðaráfanga hjá Ragnheiði Þórsdóttur og var að vefa svuntu fyrir þjóðbúning sem hún hyggst klæðast við brautskráningarathöfn í Hofi í desember nk. „Móðir mín hefur verið að hjálpa mér að sauma á mig íslenskan búninginn. Mig hefur lengi langað til þess að koma mér upp búningi og ég ákvað að hafa það sem markmið að hafa hann tilbúinn þegar ég útskrifast núna í desember,“ segir Guðbjörg Helga.
Hluti af þjóðbúningnum er silfrið sem Guðbjörg segist vera byrjuð að verða sér út um en þeim hluta verkefnisins sé ekki lokið. „Það er fínt að hafa ákveðna tímapressu, ég ætla að ná þessu öllu heim og saman fyrir útskriftina í desember, það er ekkert annað í boði,“ segir hún og hlær.
Þrátt fyrir að ljúka stúdentsprófi í desember nk. hyggst Guðbjörg Helga ekki segja skilið við VMA, því á vorönn ætlar hún að bæta við sig nokkrum raungreináföngum. Þegar hún er spurð af hverju hún ætli að styrkja sig frekar í raungreinunum gerist hún leyndardómsfull. „Það kemur í ljós hvað verður,“ segir hún brosandi.