Fara í efni

Vega og meta, mega og veta - í Listasafninu

Snæfríður Sól Gunnarsdóttir.
Snæfríður Sól Gunnarsdóttir.

Fyrirlestraröð á þriðjudögum – Þriðjudagsfyrirlestrar – í Listasafninu á Akureyri verður í vetur eins og undanfarin ár og verður fyrsti fyrirlestur vetrarins á morgun, þriðjudaginn 8. október kl. 17-17.40. Fyrirlesari verður leikstjórinn og listakonan Snæfríður Sól Gunnarsdóttir og nefnir hún fyrirlesturinn Vega og meta, mega og veta. Aðgangur er ókeypis.

Í fyrirlestrinum fer Snæfríður yfir list sína sem ýmist tekur á sig mynd leiksýninga, gjörninga, tónlistarmyndbanda, innsetninga eða texta og hvernig hún tengist á einn eða annan hátt í gegnum svipuð þemu. Snæfríður vinnur oft með kunnuglegar aðstæður sem hún teygir með útúrsnúningum og breyttu samhengi. Hún sækir jafnframt innblástur í hversdagsleg rými, reglur og rútínur.

List Snæfríðar Sólar samanstendur af textum, innsetningum, hljóðverkum, myndböndum og performönsum, en best finnst henni að blanda saman mörgum formum. Hún er útskrifuð með BA próf af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands og lauk nýverið mastersnámi frá DAMU leikhúsakademíunni í Prag af brautinni Master of Directing of Devised and Object Theatre. Undanfarið hefur hún lagt áherslu á sýningar í óhefðbundnum sýningarrýmum og tónlistarmyndbönd, en myndband hennar við lagið Problems eftir hljómsveitina Flesh Machine vann í flokki tónlistarverðlauna á Stockfish Film Festival og var tilnefnt í flokki alþjóðlegra tónlistarmyndbanda á MUVID Awards í Perú. Nú síðast leikstýrði hún nýju íslensku óperu verki, Skjóta, eftir Sigrúnu Gyðu Sveinsdóttur sem sýnt var í Ásmundarsal í júní ’24.

Þriðjudagsfyrirlestrar í Listasafninu er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA og Gilfélagsins.