Veiran setur strik í reikninginn með Sturtuhausinn
Fyrir páska stefndi allt í að unnt yrði að halda Sturtuhausinn - söngkeppni VMA með eðlilegum hætti og átti keppnin að fara fram, samkvæmt upphaflegri áætlun, í gærkvöld, fimmtudagskvöldið 8. apríl. Þær áætlanir urðu að engu með hertum sóttvarnaráðstöfunum stjórnvalda í síðustu kennsluvikunni fyrir páska.
Anna Kristjana Helgadóttir, formaður Þórdunu, segir að keppninni hafi verið frestað en ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um að aflýsa henni. Í ljósi þess að Söngkeppni framhaldsskólanna hafi þegar verið aflýst á þessu skólaári segist Anna Kristjana þó ekki vera bjartsýn á að Sturtuhausinn verði haldinn að þessu sinni, enda lítill tími til stefnu - aðeins um einn mánuður eftir í kennslu á þessu skólaári og óvíst sé hvort og þá hvenær verði slakað á núgildandi samkomutakmörkunum.