Fjölsótt og vel heppnað 40 ára afmælishóf VMA
Fjörutíu ára afmælishátíðin í Gryfjunni í gær var sérlega ánægjuleg í alla staði. Fjölmargir sóttu skólann heim af þessu tilefni, nemendur núverandi og fyrrverandi, starfsmenn núverandi og fyrrverandi og fjölmargir aðrir góðir gestir. Að loknum ræðuhöldum var boðið upp á glæsilega afmælistertu – reyndar voru þær fimm – og fólk naut stundarinnar og rifjaði upp eitt og annað frá liðinni tíð.
Myndir frá afmælishátíðinni sem teknar voru af - Hilmari Friðjónssyni og Óskari Þór Halldórssyni
Hér er upptaka frá afmælishátíðinni.
Ávörp á afmælishátíðinni fluttu Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, Ragnhildur Bolladóttir teymisstjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, Guðjón Hreinn Hauksson formaður Félags framhaldsskólakennara, Jasmín Arnarsdóttir nemandi og kynningarstjóri í stjórn Þórdunu nemendafélags VMA, Hálfdán Örnólfsson kennari við VMA frá stofnun skólans fyrir 40 árum og Jóhann Rúnar Sigurðsson formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri. Hafdís Inga Kristjánsdóttir, útskrifaður stúdent frá VMA vorið 2023, nú nemandi í söng við Tónlistarskólann á Akureyri, söng tvö lög.
„Það hafa margir sett sín spor á starfið í VMA, nemendur, starfsfólk, fyrirtæki á svæðinu og ýmsir einstaklingar sem gegnum tíðina hafa stutt við og haft hag námsins hér og skólans að leiðarljósi. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fyrir þann hlýhug sem þessi skóli hefur alls staðar í samfélaginu,“ sagði Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, við upphaf formlegrar afmælisdagskrár í Gryfjunni.
Þúfum rutt úr vegi og vöku breytt í starf
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, sagði að okkur væri öllum betur ljóst en nokkru sinni fyrr að mennt væri sannarlega máttur.
„Verklegt nám hefur því miður átt nokkuð undir högg að sækja á síðustu árum. Um langa hríð var eins og allir vildu nema félagsvísindi, bókmenntir, viðskipti eða lögfræði, fátt fólk nam iðn- og verkgreinar. Til allrar hamingju hefur orðið nokkuð hraustlegur viðsnúningur á þessu hin síðari ár og skyldi engan undra því fólk með verklega menntun hefur yfrið nóg að gera, að minnsta kosti hefur ekki verið hlaupið að því að fá iðnaðarmenn til starfa, að minnsta kosti heima hjá mér. Fólk sem útskrifast frá VMA hefur nánast undantekningalaust nóg að gera og þarf ekki að kvíða framtíðinni á vinnumarkaði. Enda eru núna sem næst þúsund nemendur að hefja nám við Verkmenntaskólann og þar af 250 nýnemar og hafa þeir aldrei verið fleiri. Að sjálfsögðu eru allar starfsstéttir samfélagsins nauðsynlegar og aukin eftirspurn eftir fagfólki á einu sviði kallar á meira framboð af góðri menntun á sama sviði. Allt leitar þetta jafnvægis og við erum hér samankomin í dag til að fagna 40 ára blómlegu starfi Verkmenntaskólans á Akureyri sem hefur svarað eftirspurn eftir dugmiklu og vel menntuðu fólki, ekki bara í verklegum greinum af stakri prýði, íbúum Akureyrar og Eyjafjarðar og Íslendingum öllum til blessunar og mikilla heilla. Og vegur og virðing Verkmenntaskólans á Akureyri vex með hverju árinu sem líður. Nú hillir loks undir stækkun húsnæðisins með nýrri viðbyggingu fyrir verknámsaðstöðu sem verður allt að 1500 fermetar. Sveitarfélögin við Eyjafjörð standa myndarlega að þessu verkefni og greiða um 40 prósent kostnaðar við bygginguna, þar af greiðir Akureyrarbær um 30 prósent. Ríkissjóður greiðir 60 prósent af framkvæmdunum. Þannig stöndum við saman að því að byggja fullkomna aðstöðu til náms í iðn- og starfsgreinum. Í nýrri byggingu verður stunduð kennsla í húsasmíði og bifvélavirkjun en um leið batnar til mikilla muna aðstaða til kennslu í m.a. rafiðnaðargreinum, háriðn og matvælagreinum. Þessi stækkun húss VMA og bætt aðstaða til náms er hluti af átaki stjórnvalda sem hefur það að markmiði að fjölga nemendum í iðn- og starfsnámi. Eftirspurnin beinlínis kallar á slíka forgangsröðum og áherslur.
Góðir gestir! Starfsfólk og stjórnendur Verkmenntaskólans á Akureyri geta horft stoltir um öxl á þessum tímamótum. Hér hefur sannarlega gott verk verið unnið í heila fjóra áratugi og við óskum ykkur innilega til hamingju með það. Það er skylda okkar sem eldri erum og höfum ráðið okkur til stjórnunar og trúnaðarstarfa í þjóðfélaginu að tryggja unga fólkinu trausta og góða menntum á öllum sviðum. Iðn- og verkgreinar þarf að hefja til öndvegis með því að skapa fyrirmyndar aðstöðu til mennta komandi kynslóða svo þær geti rutt þúfum úr vegi og breytt vöku í starf, svo vitnað sé til orða Einars Benediktssonar.“
Fjölbreytt námsframboð er einn af stærstu kostum VMA
Ragnhildur Bolladóttir, teymisstjóri málefna framhaldsskóla í mennta- og barnamálaráðuneytinu, sagði óhætt að segja að VMA hafi lengi verið hornsteinn í héraði og sett mark sitt á skólaumræðu og þróun skólastarfs á landsvísu. Ragnhildur sagði að á ýmsum sviðum hafi skólinn verið frumkvöðull, t.d. á sviði fjarnáms en VMA var fyrsti skólinn á framhaldsskólastigi sem bauð upp á fjarnám. Hún sagði að á sínum tíma hafi verið takmarkaður skilningur og ánægja með þetta framtak VMA í ráðuneyti menntamála enda hafi fjarnám verið mikil nýlunda og íhaldssemi hafi stundum verið full mikil innan stjórnsýslunnar. „En upphaf fjarkennslu VMA er gott dæmi um farsæla skólaþróun og hverju skólafólk getur áorkað ef við gefum því bara svigrúm til þess,“ sagði Ragnhildur.
„Einn af stærstu kostum skólans er hversu fjölbreytt námsframboðið er, bæði bóklegt en ekki síður starfsnám, en VMA er stærsti starfsnámsskólinn utan höfuðborgarsvæðisins og er mjög mikilvægur hlekkur í að halda úti fjölbreyttu starfsnámi á landsvísu. Og það er gaman að segja frá því að sumar iðngreinar eru bara kenndar í VMA utan höfuðborgarsvæðisins. Námsframboð skólans hefur líka tekið miklum breytingum í takt við tímann og þróast í takt við þarfir nemenda og samfélagsins hverju sinni. Nemendahópur skólans er afar fjölbreyttur og aðdáunarvert hversu vel skólinn heldur utan um þann fjölbreytta hóp. Til marks um það má nefna að starfsbraut skólans fyrir nemendur með sérþarfir er mjög stór og hefur stækkað undanfarin ár. En einkunnarorð skólans sem eru Fagmennska - Fjölbreytni - Virðing eiga mjög vel við skólann og lýsa honum vel. Ég vil fyrir hönd mennta- og barnamálaráðherra óska ykkur til hamingju með daginn með ósk um áframhaldandi gott samstarf við ráðherra og starfsfólk ráðuneytisins.“
Hér gerðist allt!
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara og stúdent frá VMA sagði það vera sér sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til þess að ávarpa 40 ára afmælishátíð VMA, enda ætti hann afar ánægjulegar minningar frá námsdvöl sinni í skólanum en hann hóf nám við VMA árið 1987.
„Mikið var þetta gaman. Ég eignaðist marga af mínum bestu vinum hér og hér sé ég andlit fólks sem var með mér í bekk á sínum tíma. Stúlka var með mér í bekk síðustu tvö árin og síðar varð hún konan mín og er það enn. Þannig að hér gerðist allt! Ég kom hér 1.51 á hæð inn í skólann en varð svo kannski 1.75 eða svo. Mér reiknast til að þetta sé 16% virðisauki! Ég kom sem sagt hingað lítið barn en gekk út nokkuð fullorðinn maður, tilbúinn til þess að fara út til Þýskalands til náms vegna þess að hér hjálpuðu mér Friðrik Þorvaldsson og Gulla Hermanns þýskukennarar. Betri kennarar held ég að finnist ekki, þau voru frábær bæði tvö. Þessi mannauður er svo mikilvægur og við verðum að halda utan um hann. Við eigum nefnilega núna í vanda í menntakerfinu vegna þess að okkur helst ekki nógu vel á því frábæra og mikilvæga fólki sem kennarar eru. Það er ekki nóg að hafa átak til þess að ná þessu fólki inn, meginátakið þarf að vera að halda því þannig að það þrífist í starfi, hafi sitt að segja, eigi sitt hlutverk og finni alltaf stöðuga merkingu í sínu starfi.“
Félagsstörfin veita mikilvæga reynslu
Jasmín Arnarsdóttir, kynningarstjóri í stjórn nemendafélagsins Þórdunu, flutti ávarp fyrir hönd núverandi nemenda skólans. Jasmín er frá Búðardal og stundar nám á sjúkraliðabraut VMA og hyggst ljúka því námi og stúdentsprófi frá skólanum.
„Það er mér sannur heiður að fá að flytja þetta ávarp á afmælishátíð VMA fyrir hönd Þórdunu og nemenda. Ég er mjög stoltur VMA-ingur vegna þess að mér finnst þetta svo geggjaður hópur af fólki, m.a. vegna þess að VMA er skóli fyrir öll, þar sem langflestir geta fundið eitthvað sem þeim líkar við og geta fengið þá aðstoð sem þeir þurfa innan skólans. Það er snilld að þurfa ekki að leita svo langt til þess að geta fengið þá aðstoð sem þig vantar. Ég fór í nemendafélagið vegna þess að ég þekkti fólk úr fyrri stjórnum sem talaði mjög vel um þetta starf og þá reynslu sem það fékk út úr því. Það sem ég fæ út úr þessu er m.a. lífsreynslan. Það er gríðarleg reynsla að vera í félagsstörfum, þroski í samskiptum, fullt af nýjum og geggjuðum vinum og miklu stærra tengslanet. Við í Þórdunu reynum að gera okkar besta við að viðhalda og skapa gott félagslíf í og utan skóla. Við höldum böll og alls konar viðburði sem við hvetjum öll að mæta á. Ég hef heyrt oft að nemendur velja VMA vegna félagslífsins í skólanum, sem við Þórdunu elskum að heyra. Það er mikilvægt að nemendur taki þátt í félagslífinu vegna þess að ef þeir taka ekki þátt er erfitt að halda uppi því frábæra félagslífi sem við erum með. Til dæmis vegna styttingar framhaldsskólanna, framhaldsskólagangan eru bestu ár lífsins og það er búið að taka eitt ár af því og því þurfum við að gera sem mest úr því sem við höfum. Þórduna er mikilvægur partur af skólagöngunni til þess að skapa eftirminnilega framhaldsskólagöngu. Í framhaldsskóla eignumst við vini og vinabönd sem geta varað lífstíð og það eru meiri möguleikar á því ef við tökum þátt í félagslífinu.
Ég segi bara takk fyrir mig, takk fyrir komuna og til hamingju með afmælið VMA og Akureyri!“
Stofnun VMA var rétt og góð ákvörðun
Hálfdán Örnólfsson og Erna H. Gunnarsdóttir hafa kennt við VMA frá stofnun skólans fyrir fjörutíu árum. Hálfdán ávarpaði afmælishófið í gær.
„Ég man eftir fyrsta kennarafundinum. Reyndar dálítið óljóst en hann var haldinn þar sem nú er barinn á Hótel Berjaya en það var þá salur Iðnskólans á Akureyri. Af þeim sem sátu þennan merka fund eru tvö eftir sem eru enn starfandi við skólann. Það eru Erna Gunnars og ég. Ég veit að hún er mér sammála um að þessi samkoma hafi verið sannkallað Happy hour!
Fleyið sem Bernharð Haraldsson, fyrsti skólameistari Verkmenntaskólans, ýtti úr vör 1. september 1984 hefur sýnt kosti sína og sannað gildi sitt svo um munar. Hinn nýi skóli var ofinn úr nokkrum þáttum sem höfðu hver um sig þjónað mikilvægum hlutverkum í skólasamfélaginu á Akureyri en urðu nú að einni öflugri heild. Stofnun Verkmenntaskólans var rétt ákvörðun og góð ákvörðun. Það ágæta fólk sem þar réði för á skilið heiður og þökk.
Á þeim tíma þegar skólinn var stofnaður var einungis lítill hluti starfseminnar kominn hingað á Eyrarlandsholtið. Að öðru leyti var hér berangur og helst að svæðið nýttist sem bithagi fyrir hross. Nú standa hér mikil mannvirki og að mörgu leyti glæsileg. Það er þó ekki húsakosturinn sem gefur Verkmenntaskólanum á Akureyri þá stöðu og það nafn sem hann hefur getið sér, heldur miklu fremur hið öfluga starf sem hefur verið haldið uppi öll þessi ár. Margir sem nú starfa við skólann hafa starfað hér í áratugi. Skólinn er einn af stærstu framhaldsskólum landsins og án nokkurs vafa einn sá fjölbreyttasti hvað varðar námsframboð. Skólinn hefur aflað sér virðingar og hlotið viðurkenningar fyrir frumkvöðulsstarf á fjölmörgum sviðum. Þar má, sem eitt dæmi af mörgum, nefna fjarkennslu í gegnum tölvur. Verkmenntaskólinn hóf slíka starfsemi árið 1994 og var þar á meðal fyrstu framhaldsskóla í heimi, ef ekki sá fyrsti.
Verkmenntaskólinn er nú kominn nokkuð á legg og hefur til þessa þjónað vel sínu hlutverki sem einn af öflugustu framhaldsskólum landsins. Vonandi munu allir sem að málum hans koma í framtíðinni skilja mikilvægi hans og leggja sitt af mörkum til þess að hann megi eflast enn frekar og sinna vel sínu hlutverki um ókomin ár. Húrra fyrir afmælisbarninu VMA!“
Ekkert samfélag án iðnaðarmanna
Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, rifjaði upp skólagöngu sína í VMA á fyrstu starfsárum skólans en hann útskrifaðist sem bifvélavirki árið 1987, þremur árum eftir að skólinn hóf starfsemi.
„Akureyri er leiðandi í iðngreinum og hefur verið iðnaðarbær lengur en elstu menn muna. Enda er það svo að iðnaðarstörf eru ein af mikilvægustu þáttum í okkar samfélagi, ekkert samfélag getur í raun verið án iðnaðarmanna. Hér stend ég sem bifvélavirki og lærður iðnaðarmaður og er stoltur af því. Það er vöntun á iðnaðarmönnum og við höfum barist fyrir því að auka við kennslu og barist fyrir þessum skóla, að hann stækki og dafni því þörfin á iðnaðarmönnum er gríðarleg. Frá því ég lærði hefur alltaf verið vöntun á iðnaðarmönnum. Þessi skóli hefur sýnt ágæti sitt og mikilvægi hans er miklu meira en við gerum okkur grein fyrir. Einhvern tímann ræddum við Baldvin Ringsted um það að fjölmörg lítil nýsköpunarfyrirtæki hér á Akureyri hafa verið stofnuð af iðnmenntuðum einstaklingum. Þessi stofnun er því ein af mikilvægustu stofnunum sem við eigum hér í bæ. Ég er stoltur af þessum skóla og er afskaplega þakklátur fyrir veru mína hér. Við málmiðnaðarmenn höfum staðið þétt við bakið á VMA og við munum fylgja því eftir að sjá þetta nýja húsnæði rísa og ég vil sjá 4-6 metra í viðbót fyrir bifvélavirkjadeildina í viðbót, svo því sé komið hér til skila.
Ég óska afmælisbarninu og okkur öllum til hamingju með þennan dásamlega skóla, megi hann lengi lifa!“