Vel heppnað diplómanám í förðunarfræði
Síðastliðinn þriðjudag brautskráðust ellefu nemendur, þar af einn úr fjarnámi, með diplóma í förðunarfræði frá Reykjavík Makeup School. Skólinn fékk leigða aðstöðu á hársnyrtibraut VMA til þess að kenna förðunarfræðina núna á haustönn og brautskráningin var í Þrúðvangi – sal matvælabrautar VMA.
Um er að ræða 10 vikna diplómanám sem hófst 4. september og lauk 7. nóvember sl. Kennt var þrjú, kvöld í viku, fjórar stundir í senn. Eigendur Reykjavík Makeup School, Heiður Ósk Eggertsdóttir og Ingunn Sigurðardóttir, kenndu og það gerðu einnig fjórir förðunarfræðingar á Akureyri, m.a. Margrét Bergmann Tómasdóttir, kennari við VMA, sem einmitt lærði förðunarfræði hjá sama skóla og brautskráðist í ágúst 2022. Þá var námið ekki í boði á Akureyri og sótti Margrét það því suður til Reykjavíkur. Margrét segir samstarf Reykjavík Makeup School og VMA hafa verið afar farsælt og stefnt sé að því að bjóða aftur upp á þetta nám á Akureyri á vorönn 2024. Skráning er á heimasíðu Reykjavík Makeup School.
Í hópi þeirra ellefu nemenda sem brautskráðust sem förðunarfræðingar sl. þriðjudag var Harpa Birgisdóttir, kennari í hársnyrtiiðn í VMA. Hún hefur árum saman unnið í leikhúsi, til hliðar við sitt daglega starf í VMA, við hár og förðun og hönnun leikgerva.
Hér má sjá Hörpu og einnig eru hér myndir af brautskráningarnemum og önnur mynd er af nemendum með tveimur af kennurum sínum, önnur þeirra, lengst til hægri, er Margrét Bergmann.