Vel heppnað málþing í byggingadeild VMA
Í síðustu viku, nánar tiltekið 25. febrúar, efndi byggingadeild VMA til málþings í húsakynnum deildarinnar þar sem voru nokkur fræðsluerindi og fulltrúar skólans og iðnmeistarar á Akureyri áttu samtal um ýmsa gagnlega hluti.
Til málþingsins var boðið iðnmeisturum úr hinum ýmsu greinum byggingariðnaðarins og mættu nokkrir meistarar í húsasmíði, pípulögnum og múrverki. Afar gagnlegar umræður sköpuðust og voru menn á eitt sáttir um að slíkt samtal milli skóla og atvinnulífs væri mjög gagnlegt og þyrfti að vera reglulega.
Fram kom í máli kennara við byggingadeild að með málþinginu vildi skólinn ekki síst fá fram viðhorf iðnmeistara sem væru með nemendur úr deildinni á námssamningi, hvað þeir teldu að leggja bæri meiri áherslu í náminu þannig að nemendur væru sem best búnir undir að koma út á vinnumarkaðinn. Einnig var rætt um ákveðna verkaskiptingu í náminu milli skóla og atvinnulífs, hvaða námsþættir það væru sem skólinn ætti auðveldara með að sinna og hvaða námsþættir einboðið væri að atvinnulífið hefði möguleika á að þjálfa nemendur betur í.
Þátttakendum var skipt í umræðuhópa og var rætt m.a. rætt um ferilbók iðnnema og Baldvin B. Ringsted leiddi umræður um námskrár í verknámi. Lýsti hann hver staðan almennt væri varðandi námskrár í verknáminu og vinnu Verkmenntaskólans í þeim efnum.
Í öðrum hópi var rætt um öryggis- og vinnuverndarmál, sem er þáttur sem byggingariðnaðurinn hefur unnið mikið með og lögð er mikil áhersla á í kennslunni í byggingadeild VMA.
Jón Þór Sigurðsson, sem veitir Fab Lab smiðjunni á Akureyri forstöðu, kynnti framþróun í notkun á þrívíddargleraugum til þess að skoða nýbyggingar í þrívídd en þróunin í þessum efnum er mjög hröð og getur verið húsbyggjendum mikilvægt hjálpartæki í framtíðinni.
Einnig var Jóhann Barkarson, múrarameistari og byggingafræðingur, með kynningu á Ajour – rafrænu verkefnastjórnunarkerfi sem hefur verið að ryðja sér til rúms. Jóhann sagðist fyrst hafa kynnst kerfinu í Danmörku og það hafi síðan verið skrifað á íslensku. Undanfarin fimm ár hefur Jóhann unnið að gæða- og verkefnastýringu. Árið 2017 opnuðu Jóhann og Magnús Jónsson útibú í Reykjavík frá danska fyrirtækinu Ajour System A/S og það þjónustar nú íslenska markaðinn.
Við þetta tækifæri veitti Helgi Valur Helgason, brautarstjóri byggingadeildar, viðtöku úr hendi Jóhanns Barkarsonar aðgang byggingadeildar að Ajour kerfinu til notkunar í kennslu í deildinni.