Vel heppnaður kynningardagur
Kynningardagur Verkmenntaskólans fyrir grunnskólanema í gær og opið hús fyrir almenning seinnipart dags gekk með miklum ágætum og var mikið líf og fjör á göngum skólans í allan gærdag.
Frá því í gærmorgun og fram til klukkan þrjú sóttu samtals um fimm hundruð grunnskólanemar skólann heim og kynnt u sér hvað hann hefði upp á að bjóða. Í M-rýminu hafði verið komið fyrir fjölda bása frá hinum ýmsu námsbrautum skólans og einstaka námsgreinum sem buðu gestum að spreyta sig á hinu og þessu. Á ýmsan hátt var farið inn á nýja braut í kynningunni , þannig voru nemendur skólans, auk kennara, í mörgum kynningarbásunum og kynntu sínar greinar. Þetta gaf mjög góða raun og jók verulega á þátttöku nemenda Verkmenntaskólans í að kynna skólann sinn. Einnig voru kynningar og uppákomur af ýmsu tagi í húsnæði nokkurra verknámsbrauta og þangað lögðu margir grunnskólanemar leið sína í gær og skemmtu sér hið besta, um leið og þeir fengu upplýsingar um í hverju námið fælist.
Hér má sjá nokkrar myndir sem voru teknar á kynningardeginum í gær.
Öllum grunnskólanemendum og forráðamönnum grunnskólanna sem komu í heimsókn í VMA í gær er þakkað kærlega fyrir komuna. Einnig er gestum sem heimsóttu skólann seinnipart dags í gær þakkað sömuleiðis fyrir komuna. Forráðamenn VMA eru ætíð boðnir og búnir að veita sem bestar upplýsingar um það fjölbreytta starf sem fer fram innan veggja skólans.