Fara í efni

Vel heppnuð suðurferð

Nemendur og kennarar byggingadeildar VMA fengu m.a. kynningu á hinu risavaxna byggingarverkefni, nýj…
Nemendur og kennarar byggingadeildar VMA fengu m.a. kynningu á hinu risavaxna byggingarverkefni, nýja Landspítalanum.

„Þetta var virkilega ánægjuleg ferð sem ég tel að nemendur okkar hafi haft mikið gagn af,“ segir Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar, en fyrr í þessum mánuði fór hópur nemenda og kennara í byggingadeild VMA í kynningar- og skoðunarferð til höfuðborgarinnar og sá m.a. sýninguna Verk og vit, þar sem allt það nýjasta í bygginga- og verktakageiranum var sýnt.

Þrjátíu og þrír nemendur fóru suður – nemendur á öðru ári, lokaönn og kvöldskólanemar – auk kennaranna Helga Vals, Braga Óskarssonar og Kristjáns Arnar Helgasonar. Farið var suður miðvikudaginn 17. apríl og komið norður aftur 19. apríl. Á suðurleið var stoppað í Borgarnesi og tveir vinnustaðir skoðaðir, Límtré Vírnet og Steypustöðin í Borgarnesi, tvö stór fyrirtæki í byggingarbransanum. Steypustöðvarmenn framleiða m.a. forsteyptar einingar og eitt af stórum verkefnum sem fyrirtækið hefur verið að takast á við að undanförnu eru forsteyptar tröppur, nýjar kirkjutröppur Akureyrarkirkju. Þetta verkefni er á ýmsan hátt nokkuð snúið, ekki síst vegna þess að nýju tröppurnar verða með snjóbræðslu. Því þarf að koma hitalögnum fyrir í forsteyptu tröppunum eftir kúnstarinnar reglum.

Í Reykjavík skoðaði hópurinn eitt og annað áhugavert. Meðal annars var farið í heimsókn í Efnissöluna og skoðaðar fjölmargar og mismunandi viðartegundir. Þá var farið í heimsókn í byggingadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti, á byggingarsvæði nýja Landspítalans við Hringbraut, stærsta byggingarverkefni Íslandssögunnar, og síðan var kíkt á Hallgrímskirkju og sumir úr hópnum brugðu sér upp í kirkjuturninn og nutu útsýnisins yfir borgina.

Sem fyrr segir lá síðan leiðin á sýninguna Verk og vit. Ístak var með bás á sýningunni og kynnti nemendum starfsemi fyrirtækisins. Hópurinn fékk frítt inn á sýninguna í boði Ístaks og er ástæða til að þakka sérstaklega fyrir þann góða stuðning.

Suðurferðin tókst ljómandi vel og vilja nemendur og kennarar koma á framfæri kæru þakklæti til VMA fyrir stuðninginn og allra sem tóku á móti þeim og greiddu götu þeirra á einn eða annan hátt.