Lauk vélstjórnarnámi frá VMA vorið 2018 - nú yfirvélstjóri á nýjasta fiskiskipi flotans
Friðrik Karlsson lauk námi í vélstjórn frá VMA fyrir rösku ári síðan, vorið 2018. Hann sótti sér í framhaldinu viðbótarmenntun í rafvirkjun og nú hefur hann verið ráðinn yfirvélstjóri á nýjasta skip flotans, Harðbak EA 3, sem Samherji á og mun gera út frá Akureyri. Skipið kom til heimahafnar sl. laugardag frá Noregi, þar sem það var smíðað.
„Ég lauk vélstjórnarnáminu í VMA vorið 2018 og starfaði sem vélstjóri á Hjalteyrinni fram að síðustu áramótum en þá fórum við Benedikt Orri Pétursson, félagi minn úr vélstjórninni í VMA, suður og lukum sl. vor í Tækniskólanum því sem upp á vantaði til þess að ljúka námi í rafvirkjun. Ég fór aftur á Hjalteyrina sl. sumar og var síðan ráðinn vélstjóri á þetta nýja skip og hef verið í Noregi, þar sem skipið var smíðað, síðustu tæpa tvo mánuði,“ segir Friðrik.
Friðrik segir óneitanlega mikinn mun á Hjalteyrinni og hinu nýja skipi, Harðbaki. Allur aðbúnaður áhafnar sé betri og vinnuslubúnaður fullkomnari og bjóði upp á meiri möguleika.
Friðrik fer ekki leynt með að með vali á vélstjórnarnáminu á sínum tíma hafi hann stefnt að því að fara til sjós. Á meðan á náminu stóð hafi hann farið í nokkra túra sem háseti og reyndar einnig leyst af í þrjá túra sem vélstjóri á Frosta á Grenivík.
Lokaverkefni sitt í vélstjórnarnáminu unnu Friðrik og Benedikt Orri í samstarfi við Samherja og fjallaði það m.a. um olíunotkun á togskipi Samherja, Björgu EA.
Gert er ráð fyrir að Harðbakur fari í fyrsta túrinn fljótlega eftir áramót. Fyrir liggur að setja í hann vinnslulínu og verður það gert í Slippnum Akureyri. Samherjamenn, þ.m.t. Friðrik, munu vinna náið með Slippnum við útfærslu og uppsetningu fiskvinnnslunnar í skipinu.
Harðbakur mun fyrst og fremst afla hráefnis fyrir vinnslu Útgerðarfélags Akureyringa á Akureyri. Í lest skipsins er rými fyrir 250 fiskiker, sem þýðir að fullur getur hann borið um áttatíu tonn af fiski að landi. Eins og almennt gerist nú til dags verða túrarnir stuttir, að jafnaði ekki lengri en þrír dagar, því mikilvægast sé að fá fiskinn eins ferskan og mögulegt er til vinnslu og áfram á erlenda markaði.