Vélstjórn vekur áhuga
Kennslustund í grunndeild málm- og véltæknigreina. Stefán Finnbogason kennari leiðbeinir nýnemum um notkun nauðsynlegra handverkfæra við málmsmíðina. Það verður að byrja á grunninum, segir hann, og byggja síðan ofan á hann.
Grunndeildina verða nemendur að taka og byggja ofan á grunninn þegar þeir velja eftir fyrsta veturinn hvert skal haldið – stálsmíði, blikksmíði, vélstjórn eða eitthvað annað. Ef grunnurinn er ekki til staðar, segir Stefán, er erfitt að byggja ofan á hann. Þess vegna sé mikilvægt að nemendur tileinki sér strax rétt handbrögð og kunni notkun handverkfæranna. Síðan sé smám saman bætt við þekkinguna og nemendur læri á notkun vélbúnaðar.
Eins og undanfarin ár er grunndeild málm- og véltæknigreina í VMA fjölmenn. Einn nemendanna í hópnum sem Stefán kennari leiðbeindi er Akureyringurinn Svala Svavarsdóttir. Hún segist hafa farið sl. vetur í bóknám í MA en fundið fljótlega að það ætti ekki við hana. Þess vegna hafi hún ákveðið að hefja verknám í VMA í haust og grunndeild málm- og véltæknigreina hafi orðið fyrir valinu. „Það eru vissulega málmiðnaðarmenn í kringum mig – bæði pabbi og bróðir minn vinna í Slippnum – og það kann að hafa haft eitthvað um það að segja að ég valdi að fara þessa leið,“ segir Svala.
„Mér líst mög vel á Verkmenntaskólann enda hefur hann mikinn sveigjanleika með val á áföngum. Við verðum að sjá til hvert leiðin liggur en mér finnst vélstjórn áhugaverð,“ segir Svala og bætir við að hún hyggist samhliða námi í grunndeildinni taka áfanga í næringarfræði í fjarnámi VMA. Ástæðan sé ekki síst sú að hún stundi íþróttir af kappi, m.a. sé hún í meistaraflokkshópi KA/Þórs í handbolta.