Vélstjórnar- og rafiðnnemar heimsóttu Blönduvirkjun
Hópur um fimmtíu nemenda og kennara í vélstjórn og rafvirkjun í VMA brugðu sér bæjarleið í gær og sóttu heim Blönduvirkjun í Húnaþingi og fengu þar mjög góða kynningu á virkjuninni. Skoðaður var stjórn- og vélbúnaður virkjunarinnar.
Vélstjórar og rafvirkjar eru sannarlega eftirsóttur vinnukraftur í virkjunum landsins og því var engin tilviljun að farið var í heimsókn í Blönduvirkjun.
Blöndustöð, sem er ein af aflstöðum Landsvirkjunar, er um margt merkilegt mannvirki. Hún nýtir rennsli jökulárinnar Blöndu og er eina aflstöð Landsvirkjunar á Norðvesturlandi. Þetta er fyrsta stórvirkjun á Íslandi sem er alfarið hönnuð af Íslendingum og var hún tekin í notkun á árunum 1991-1992. Uppsett afl Blöndustöðvar er 165 megavött og getur hún því skilað 990 gígavattstundum af rafmagni á ári.
Blöndulón er þriðja stærsta stöðuvatn á Íslandi og hefur 412 gígalítra af vatni til að miðla til raforkuframleiðslu.
Blöndustöð er neðanjarðarstöð, um 230 metrum undir yfirborði jarðar. Frá Blöndulóni er vatninu veitt um 25 kílómetra leið að Gilsárlóni, sem er inntakslón virkjunarinnar. Þaðan er vatninu svo veitt um 1,3 km langan skurð að inntaki Blöndustöðvar, þar sem það er leitt niður í vélar að stöðvarhúsi. Fallhæð að vélum er 287 metrar. Eftir að hafa farið í gegnum hverfla rennur vatnið 1,7 km um frárennslisgöng, aftur út í farveg Blöndu.
Í ferðinni í gær voru þeir rafvirkja- og vélstjórnarnemar sem útskrifast úr sínu námi síðar í þessum mánuði auk nemenda í vélstjórn sem hafa núna á vorönn verið í áfanga þar sem sjónum er beint að virkjunum frá ýmsum hliðum. Með í för voru kennararnir Óskar Ingi Sigurðsson, Ingimar Árnason og Sævar Páll Stefánsson.
Nemendur og kennarar VMA vilja koma á framfæri bestu þökkum til Guðmundar Ögmundssonar verkefnisstjóra, rafvirkjanna Gísla Árnasonar, Óla Þórs Jónssonar, Baldvins Freys vélstjóra og Valdimars fyrir höfðinglegar móttökur og frábæra leiðsögn.