Vélstjórnarnemar gera upp 50 ára mótor úr Bangsa
Tíu vélstjórnarnemar í áfanganum Viðhald véla og kennari þeirra, Jóhann Björgvinsson, glíma við afar skemmtilegt verkefni á næstu vikum og mánuðum. Verkefnið felst í því að rífa í sundur bensínmótor Bangsa, hálfrar aldar gamals snjóbíls í eigu Sigurðar Baldurssonar á Akureyri, og freista þess að fá hann til þess að ganga á ný.
Í gær, þriðjudag, fóru nemendurnir og Jóhann í það verkefni að rífa mótorinn úr snjóbílnum, hvar hann stendur ofan Akureyrar, skammt frá metanhaugunum á Glerárdal. Það reyndist ekki auðvelt verkefni, frekar en búast mátti við, en gekk þó að lokum og nú bíður mótorinn þess að verða tekinn til bæna á næstu vikum. Jóhann er bjartsýnn á að unnt verði fá mótorinn til þess að ganga á nýjan leik.
Baldur Sigurðsson, faðir Sigurðar Baldurssonar, átti og gerði Bangsa út til jöklaferða á Vatnajökli yfir sumarið og einnig var hann m.a. notaður í ýmsar vetrarferðir á Akureyri og í nágrenni. Bangsi er af gerðinni Bombardier, árgerð 1973, en bensínmótorinn er af gerðinni Chrysler Industrial. Eftir að hætt var að nota Bangsa í jöklaferðum lá leið hans vestur í Staðarskála í Vestur-Húnavatnssýslu og síðar var hann í nokkur ár á Samgönguminjasafni Skagafjarðar. En Bangsa eignaðist Siggi á haustmánuðum 2021 og er ætlun hans að gera hann upp, enda sögulegur gripur. Mikilvægur liður í því er vitaskuld að gera upp mótorinn, sem hefur lengi verið fastur.
„Siggi nefndi einhvern tímann við mig hvort ég gæti gert upp mótorinn í Bangsa. Ég orðaði þetta svo við kennarana hér í vélstjórn og við vorum sammála um að það væri upplagt námsverkefni fyrir nemendur að gera mótorinn upp. Í síðustu viku fórum við og kíktum á aðstæður og í gær fórum við og tókum mótorinn úr Bangsa og nú er hann kominn hingað inn á gólf. Á þriðjudögum núna á vorönninni verður verkefni okkar að rífa mótorinn í sundur og greina hvað veldur því að hann hefur verið fastur.
Þetta er fínasta verkefni fyrir nemendur enda hafa þeir ánægju af svona ati. Ég er bjartsýnn á að við komum mótornum í gang en við getum ekki fundið út úr því fyrr en hann verður rifinn í sundur. Það er erfitt að segja til um hvað hefur valdið því að mótorinn er fastur, en bíllinn hefur lengi staðið og ég tel líklegast að það hafi safnast raki inn á mótorinn og myndast ryð inn í cylendrunum. En þetta getum við ekki sagt til um fyrr en við sjáum inn í mótorinn. Það er mjög virðingarvert að Siggi vilji gera bílinn upp enda merkilegur og sögufrægur gripur. Mér finnst frábært að við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar í þessu verkefni,“ segir Jóhann Björgvinsson.
Sigurður Baldursson er hæstánægður að nemendur taki þetta verkefni að sér. Hann er kominn á fullt við að gera Bangsa upp og er nú þegar búinn að verja um 400 vinnustundum í verkefnið. Sigurður er þess fullviss að hann muni geta notað Bangsa í vetrarferðum með ferðamenn á Glerárdal í framtíðinni, rétt eins og faðir hans gerði á Vatnajökli forðum daga, en Sigurður hefur undanfarin ár boðið upp á ævintýraferðir á vélsleðum fyrir ferðamenn á Glerárdal.