Læra viðhald véla
Vélstjórnarnámið í VMA er yfirgripsmikið og ítarlegt og óhætt er að segja að atvinnumöguleikar að því loknu séu mjög góðir. Sannast sagna hafa brautskrifaðir vélstjórar úr VMA nánast getað valið úr störfum að námi loknu. Og því til viðbótar er vélstjórnarnámið afar góður grunnur fyrir frekara tækninám og einnig hafa margir útskrifaðir vélstjórar farið áfram í háskólanám í t.d. verkfræði. Það þarf því ekki að koma á óvart að vel hefur verið bókað í vélstjórnarnámið í VMA undanfarin ár.
Vélstjórnarnámið er bæði bóklegt og verklegt. Þegar litið var á dögunum inn í kennslustund í verknámi vélstjórnarnema var Bragi Finnbogason að leiðbeina þeim með ýmsar mælingar á vélum, m.a. voru nemendur að gera mælingar á mögulegu kasti, en mikill snúningshraði á öxlum gerir það að verkum að hið minnsta kast getur á stuttum tíma eyðilagt allar legur og skapað annað og verra tjón.
„Þessi áfangi heitir viðhald véla og snýst um ýmsa þá vinnu sem unnin er á vélaverkstæðum eða vélstjórar um borð í fiskiskipum þurfa að geta tileinkað sér,“ segir Bragi. „Ef ég nefni bara eitt lítið dæmi, þá getum við hugsað okkur fiskiskip út á rúmsjó sem er að fiska fyrir fimm til tíu milljónir á dag. Í mokfiskeríi er auðvitað ófært að aðalvélin sé lengi stopp vegna bilunar. Sem aftur þýðir að vélstjórinn um borð verður að vera klár á að gera það sem gera þarf. Það er í raun þetta sem við erum að kenna nemendum í þessum áfanga, hvernig þeir geti strax brugðist við og leyst málin ef upp koma bilanir af ýmsum toga í vélbúnaði,“ segir Bragi.
Hann segir að farið sé í gegnum allar helstu bilanir sem upp geta komið í vélum og sömuleiðis lögnum. Í þessari verklegu kennslu sé notast við þann vélbúnað sem sé til staðar í skólanum og einnig hafi nemendur farið út fyrir skólahúsið og skoðað vélar í skipum í höfn á Akureyri. Þá hafi nemendur einnig fengið það sem verðugt verkefni að fá í hendur gamlar vélar utan úr bæ og taka þær hreinlega upp frá grunni. Bragi segir slíkt lærdómsríkt og sé til þess fallið að þjálfa nemendur vel.