Með mörg járn í eldinum
Valgerður Þorsteinsdóttir, 22ja ára nemandi á listnáms- og hönnunarbraut VMA, hefur heldur betur mörg járn í eldinum. Auk þess að stunda listnám er hún að læra söng í Tónlistarskólanum á Akureyri, hún lærir upptökutækni í Tónræktinni, syngur í kór og er þar að auki kynningarfulltrúi Þórdunu – nemendafélags VMA.
Valgerður brosir þegar hún rifjar upp hvar hún hefur staldrað við á sinni framhaldsskólagöngu. „Ég byrjaði á málabraut, skipti yfir á iþróttabraut, fór svo yfir á félagsfræðibraut og endaði hér á listnáms- og hönnunarbraut fyrir um tveimur árum. Ég er frá Grímsey en bjó í Reykjavík í um tíu ár og var um tíma í Kvennaskólanum. En ég kom aftur norður og kann mjög vel við þetta nám á listnámsbrautinni. Ég hef alltaf haft gaman af tónlist og listsköpun almennt og því finnst mér ég loksins vera á réttum stað. Ég er líka í tónlistinni, er í söngnámi hjá Þórhildi Örvarsdóttur í Tónlistarskólanum á Akureyri og er auk þess að læra upptökur hjá Ármanni í Tónræktinni. Ég er líka að syngja í Kvennakór Akureyrar,“ segir Valgerður og bætir við að hún sé þar að auki kynningarfulltrúii Þórdunu – nemendafélags VMA.
En hvernig kemst Valgerður yfir að sinna öllu því sem hún er með á prjónunum? „Það er ekkert mál, þetta er allt svo skemmtilegt. Ég get ekki sagt að ég sé skipulögð manneskja en ég læt þetta allt ganga upp. Ég er þannnig að ég verð alltaf að hafa nóg að gera, annars verð ég hálf eirðarlaus.“
Valgerður segir að hún hafi farið „óvart“ í tíma í sjónlist hjá Hallgrími Ingólfssyni og eftir það hafi ekki verið aftur snúið. „Sá tími kveikti áhugann og ég ákvað þá strax að færa mig yfir á listnáms- og hönnunarbraut og sé ekki eftir því. Það á vel við mig að vera í bland í verklegu og bóklegu nám. Stefnan er að ljúka stúdentsprófi af þessari braut.“
Sem fyrr segir er Valgerður samhliða náminu í VMA á fullu í tónlistinni, hún er að læra söng og syngja í kór og er einnig að læra að taka upp tónlist. Það ætti að nýtast henni vel því hún upplýsir að hún geri töluvert af því að semja tónlist. „Ég hef verið með tónleika og uppistand í stofunni heima síðan ég var fimm ára. Söngurinn hefur alltaf heillað mig,“ segir hún og nefnir að hún spili bæði á píanó og gítar „Ég get alveg hugsað mér að vinna að tónlist í framtíðinni og þá heillar leiklistin líka. Ég veit ekki hvaðan þessi tónlistargen koma en það var mikil tónlist í kringum mig og Árni Scheving, afi minn, starfaði lengi sem tónlistarmaður,“ segir Valgerður Þorsteinsdóttir.