Verðum sem þjóð að standa upp og stoppa þetta
Punkturinn var settur yfir i-ið í Gryfjunni í kvöld í forvarnavikunni í VMA, sem staðið hefur síðan sl. mánudag, með fjölmennu forvarna- og skemmtikvöldi þar sem flutt voru ávörp og tónlist.
Eins og hefur komið fram hafa nemendur í áfanganum viðburðastjórnun undirbúið og staðið að framkvæmd forvarnavikunnar undir handleiðslu kennara síns, Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur. Öll eiga þau sem að vikunni stóðu mikið hrós skilið fyrir alla þeirra vinnu og þetta góða framtak.
Það kom greinilega fram í máli þeirra sem fluttu ávörp á forvarna- og skemmtikvöldinu í kvöld að neysla ungs fólks á lyfseðilsskyldum lyfjum og fíkniefnum nú um stundir nálgast það að vera faraldur og því sé forvarnavika eins og verið hefur í VMA í þessari viku mikilvæg til þess að vekja alla til umhugsunar um stöðu mála og þá hættu sem að steðjar.
Í upphafi dagskrár í kvöld afhenti Karen Malmquist samskot, einskonar sektarsjóð, sem hefur orðið til á þessari önn. Þeir nemendur sem mæla af munni fram svokölluð „f-orð“ í tímum hjá henni þurfa að greiða 50 krónur í sektarsjóð. Einnig hafa borist frjáls framlög í Könnusjóð Karenar. Samtals afhenti Karen 4000 kr. til aðstandenda Minningarsjóðs Einars Darra, Báru, móður Einars heitins, og Anítu og Andreu systur hans, sem komu frá Reykjavík til þess að tala fyrr í dag til nemenda VMA og aftur í kvöld til gesta á opnu forvarna- og skemmtikvöldi í Gryfjunni.
Nístandi sársauki og sorg
Einar Darri, nýorðinn 18 ára gamall, lést á heimili fjölskyldunnar 25. maí sl. Bára móðir hans lýsti í Gryfjunni í kvöld þeim mikla og nístandi sársauka og sorg sem fráfallinu hefur fylgt og mun áfram fylgja fjölskyldunni. Hún lýsti Einari sem sérlega skemmtilegum strák sem hafi borið hlýju til allra. Var vinsæli gaurinn í leik- og grunnskóla. „Ég mun aldrei gleyma þessum degi. Aníta systir Einars skyldi útskrifast sem stúdent þennan dag. Gleðidagur sem breyttist í harmleik,“ rifjaði Bára upp. Hún sagði að Einar hefði komið seint heim kvöldið áður úr vinnunni, en hann vann sem þjónn á Hótel Glym. Ekki reyndist unnt að vekja hann í rúminu sínu. Reynd var endurlífgun en án árangurs.
Það vissi enginn í fjölskyldunni að Einar Darri hefði verið að misnota lyf og þeir sem næst honum standa spyrja sig daglega hvernig þetta gat gerst. Í ljós hefur komið að lyfjaneyslan var vart í lengri tíma en tvær vikur. „Við fengum aldrei tækifæri til þess að hjálpa honum. Við ákváðum að hefja þjóðarátak. Einar er ekki einsdæmi. Hans vinahópur er ekki sá eini. Þetta er út um allt. Hundruð manna á Ísland sitja eftir í sorg. Við verðum sem þjóð að standa upp og reyna að stöðva þetta. Misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum er að fara upp úr öllu valdi. Við erum á sömu leið og Bandaríkin. Þetta er heimsvandamál en ástandið hér á Ísland er orðið óvenju slæmt,“ sögðu systur Einars Darra í Gryfjunni í kvöld og bættu við að eftir að hann lést hafi farsími hans verið skoðaður og í ljós kom m.a. app sem veitti aðgengi að tilboðum á lyfjum og fíkniefnum.
Bára móðir Einars sagði að aðgengi að lyfjum væri allt of auðvelt og efla þyrfti forvarnir, þess vegna hefði fjölskyldan ákveðið að stofna Minningarsjóð Einars Darra sem þegar hafi unnið að ýmsum verkefnum og fleiri séu í farvatninu.
Það er alltaf von
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, þakkaði í upphafi síns máls nemendum og kennurum VMA fyrir þetta framtak. Hún lýsti því að hún hafi byrjað að drekka áfengi 13 ára gömul, farið í fíkniefnaneyslu tveimur síðar og þegar upp hafi verið staðið hafi hún sjö sinnum farið í meðferðir á Vogi. Árið 1995 tókst henni að verða edrú og hóf að vinna með Jafningjafræðslunni, fór um landið og sagði reynslusögur. Hún sagði sláandi að enn þá árið 2018 sé staðan eins og hún er og raunar sé hún verri en hún var fyrir meira en tveimur áratugum. Nú sé í gangi öðruvísi tískubylgja í þessum harða heimi en á síðasta áratug síðustu aldar. Ég tel mig vera heppna að hafa lifað af og eiga dásamlegt líf í dag,“ sagði Hilda Jana.
En þar með var ekki öll sagan sögð því dóttir Hildu hefur glímt við sömu vandamál og hún. „Að takast á við þetta með dóttur mína er það erfiðasta sem ég hef tekist á við á ævinni,“ lýsti Hilda Jana og sagði að dóttir hennar hafi farið niður í djúpa og dimma dali, rétt eins og hún sjálf á sínum tíma, en hún hafi nú verið edrú í um eitt ár. Það er líka gott að geta sagt sigursögur, það er alltaf von,“ sagði Hilda Jana Gísladóttir.
Bjóst ekki við að fagna tvítugsafmælinu
Tónlistarkonan Saga Nazari flutti síðasta ávarp kvöldsins. Hún lýsti því að hún hafi ung byrjað í neyslu. „Af hverju byrjaði ég í neyslu? Það er flókin spurning. Ég var spennufíkil. Ofvirk, leiðinlegi krakkinn í bekknum. Gat ekki verið kyrr. Þróaði með mér grímur í grunnskóla. Varð fyrir miklu ofbeldi í æsku. Þetta byrjaði með saklausu fikti, ég drakk landa með grunnskólavinkonum. Mér fannst þetta geðveikt, ég fann mig og þurfti ekki að vera með grímu. Ég gat allt. Mér fannst ég finna mig í fíkniefnaneyslunni og var fljót að viðurkenna að ég væri dópisti. Þá þurfti enginn að vera með væntingar til mín. Fyrir mér var þetta minn þægindarammi. Ég sótti í þennan félagsskap og fannst hann góður. Mér leið eins og allur heimurinn væri á móti mér og ég ákvað að fara gegn honum. Ég fór fljótt á kaf í örvandi og róandi lyf. Ég hef misst nokkra vini, einn þeirra hengdi sig í kjallaranum heima hjá sér. Ég var sjö ár í neyslu en undir lokin ákvað mamma mín að klippa naflastrenginn og ég veit að slíkt er erfiðasta ákvörðun sem foreldrar taka. Ég er ekki viss um að ég væri á þessum stað í dag ef hún hefði ekki gert þetta. Ég var heimilislaus í eitt ár og fór á milli dópgrena. Undir lokin braut ég öll mín prinsip – fyrir eiturlyf, húsaskjól og fleira. Ég ákvað loks að fara í meðferð en var skíthrædd við hana. Mér leið eins og geimvera í geimskipi sem beið eftir að verða sótt. Var á Vogi í 20 daga og síðan í eftirmeðferð. Ég bjóst aldrei við að öðlast það líf sem ég lifi í dag. Núna er ég búin að vera edrú í næstum því þrettán mánuði. Sannast sagna bjóst ég ekki við að geta fagnað tvítugsafmælinu mínu. En ég fór að viðurkenna vandann fyrir sjálfri mér og öðrum og það sem hjálpar mér er að vera í samskiptum og samstarfi við óvirka alkohólista í gegnum 12 spora kerfið. Tónlistin skiptir mig miklu máli en það skiptir mig enn meira máli að koma hingað og segja ykkur mína reynslusögu. Ég vil þakka krökkunum hér í VMA sem skipulögðu þessa forvarnaviku og vonandi verður þetta árlegt. Ég er tilbúin að koma til ykkar á hverju ári,” sagði Saga Nazari.
Saga flutti í lokin þrjú frumsamin lög. Síðasta lagið, sem hún fékk leyfi Baldvins Z leikstjóra til þess að nefna Lof mér að falla, sagðist hún hafa samið sérstaklega af þessu tilefni og því var lagið frumflutt í Gryfjunni í kvöld. Óhætt er að segja að það hafi verið áhrifaríkt.
Akureyringurinn og trúbadúrinn Stefán Haukur Björnsson Waage flutti einnig tvö lög í Gryfjunni í kvöld.