Hefur gengið glimrandi vel
Óhætt er að fullyrða að Bjart með köflum í uppsetningu Leikfélags VMA hefur fengið mjög fínar viðtökur áhorfenda. Nú er komið að þremur seinni sýningum á verkinu – þær verða í Freyvangi í kvöld, annað kvöld og á laugardagskvöldið og hefjast allar klukkan 20.
Egill Bjarni Friðjónsson er einn af leikurunum í sýningunni. Hann segir að leikhópurinn sé mjög ánægður með viðtökurnar. „Þetta hefur gengið vonum framar. Fyrstu þrjár sýningarnar gengu glimrandi vel og þetta rann mjög vel,“ segir Egill Bjarni. Hann segir undanfarnar vikur hafi verið þétt setnar. „Já, þetta hefur verið mikil törn, líklega sú mesta sem ég hef upplifað. Við byrjuðum undir lok síðasta árs og síðan voru nánast stanslausar æfingar frá áramótum og fram að frumsýningu.“
Egill Bjarni leikur bóndann á bænum Hvammi sem er efnahagslega vel settur í samanburði við nágrannabóndann, „en inn við beinið er hann reyndar hálfgerður ræfill, að minnsta kosti í hinu daglega lífi heima hjá sér.“
Egill Bjarni er ekki algjör nýgræðingur í leiklistinni. „Nei, ég hef tekið þátt í tveimur leiksýningum hér í VMA, í einni annarri áhugaleiksýningu og sömuleiðis lék ég aðeins þegar ég var í grunnskóla. En þetta er það stærsta sem ég hef gert.“
Í vor stefnir í brautskráningu Egils Bjarna af félags- og hugvísindabraut. Hann neitar því ekki að leiklistin togi í hann í framtíðinni. „Ég hef líka áhuga á kvikmyndagerð. Veit ekki alveg enn sem komið er hvort leiklistin eða kvikmyndagerðin verður ofan á. Ætla þó að vinna þetta ár að minnsta kosti en horfi til þess að fara í nám í upphafi næsta árs eða haustið 2017,“ segir Egill Bjarni.
Egill Bjarni segir að sýningarnar þrjár í kvöld, annað kvöld og á laugardagskvöldið leggist mjög vel í sig. „Ég hef heyrt að miðasalan gangi vel. Það er tilhlökkun í mér og okkur öllum, þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Egill Bjarni Friðjónsson.
Miðasala er í hljómdeild Eymundsson við Hafnarstræti og á vefnum Tix.is. Einnig er hægt að kaupa miða með því að hringja í síma 4611212 (símanúmer Þórdunu – nemendafélags VMA) milli kl. 17 og 19.