Fara í efni

Verkleg kennsla pípulagnanema í nýjum húsakynnum Skútabergs

Á annarri hæð þessa óinnréttaða húss Skútabergs við Krossanesbraut fer vel um nemendur í verklegu ná…
Á annarri hæð þessa óinnréttaða húss Skútabergs við Krossanesbraut fer vel um nemendur í verklegu námi í pípulögnum.

Nú undirbúa sextán nemendur sig af kappi fyrir sveinspróf í pípulögnum í VMA sem verður á fyrstu dögum nýs árs. Það felst m.a. í að nemendur æfa sig í því að setja upp ýmsan búnað og tengja, rétt eins og væri prófið sjálft – sem sagt verklegar æfingar. Áfanginn heitir einfaldlega Lokaverkefni í pípulögnum.

En þá vandaðist málið því fyrir svo stóran námshóp þarf stórt rými og það liggur hreint ekki á lausu í VMA. Því hefur lengi verið leitað að bráðabirgðahúsnæði úti í bæ þar sem nemendur gætu lagt undir sig. Og málið leystist farsællega þegar Skútaberg ehf lét VMA í té óinnréttað rými í nýbyggingu fyrirtækisins við Krossanesbraut fyrir pípulagnanemana. Í framtíðinni verður húsið höfuðstöðvar Skútabergs með skrifstofu, starfsmannaaðstöðu o.fl. Húsið hefur verið einangrað að utan en eftir er að klæða það og að innan eru hæðirnar þrjár óinnréttaðar.

Hinrik Þórðarson, pípulagningarmeistari og kennari pípulagnanemanna, segir það hafa verið sem himnasending að fá inni í þessu óinnréttaða húsi. Hópurinn fékk að koma sér fyrir á annarri hæðinni og þar hafa verið settir upp kennslubásar, nauðsynlegur vélbúnaður hefur verið settur upp og búið að setja upp kaffihorn. Og nemendur sáu auðvitað um að koma upp vatns- og salernisaðstöðu í húsinu, þannig að öllum kröfum sé fullnægt.

Lýsing á þessum lokaverkefnisáfanga fyrir sveinspróf er eftirfarandi:

Í áfanganum vinna nemendur verkefni sem felur í sér samþættingu þekkingar og færni sem aflað hefur verið í skóla og á vinnustað á námstímanum. Áhersla er lögð á skipulagningu, framkvæmd, eftirlit, skráningu og rökstuðning en að öðru leyti er ekki um að ræða fyrirfram ákveðna verkþætti. Reynt er að líkja eftir aðstæðum í atvinnulífinu og hafa nemendur aðgang að öllum fyrirliggjandi gögnum, efni, áhöldum og tækjum meðan á verkefninu stendur. Um er að ræða undirbúning fyrir verklegan hluta sveinsprófs í pipulögnum. Þar sem verkefninu er ætlað að endurspegla raunverulegar aðstæður er æskilegt að tíminn sem ætlaður er, dreifist ekki á langt tímabil.

Hinrik segir þessa rúmgóðu aðstöðu mjög hentuga og sannarlega hafi spilast vel úr málum. Hann vill koma á framfæri sérstökum kveðjum og þökkum til forráðamanna Skútabergs fyrir afnot af þessu fína húsnæði. Hinrik segir stefnt á að vera með verklega kennslu í þessum húsakynnum til a.m.k. 10. desember en skriflega sveinsprófið verður síðan föstudaginn 3. janúar og vikuna á eftir verður verklegi prófhlutinn. Nemendahópnum verður þá skipt upp í tvo hópa. Heildarlengd sveinsprófsins er 24 tímar – 1,5 klst í skriflega prófið og verklegi hlutinn 22,5 tímar. En áður en til sveinsprófsins kemur fá nemendur brautskráningarskírteini á desemberberútskrift VMA.

Að lokinni grunndeild byggingagreina eru nemendur í pípulögnum þrjár annir í skóla og einnig þurfa þeir að hafa lokið allt að 96 vikna starfsnámi. Hinrik segir að bróðurpartur nemendanna, sem eru á aldrinum 18 til 43 ára, sé á fullu í faginu, til hliðar við námið. Eins og gengur hafi sumir þeirra meiri og lengri starfsreynslu en aðrir og segir hann gott fyrir yngri verðandi pípulagningamennina að fá tækifæri til þjálfunar með sér eldri og reyndari mönnum.

Auk þessara verklegu æfinga eru nemendur að ljúka bóklegum áföngum á þessari lokaönn námsins, t.d. tölvuteikningu, áætlanagerð, endurlögnum í gömul hús og sérlögnum (t.d. gaslagnir og sprinklerkerfi).

Hinrik hefur fylgt bróðurparti þessara sextán nemenda eftir í hartnær þrjár annir en á þessari lokaönn bættust við nokkrir nemendur af Austurlandi sem vilja nota tækifærið og ljúka náminu til starfsréttinda. Og þegar einn hópur lýkur sínu námi tekur annar við. Nú er í gangi innritun í nýjan námshóp í pípulögnum sem fer af stað á næstu önn, vorönn 2025. Að sögn Hinriks stefnir í að næsti hópur verði einnig drjúgt stór. Enda ekki vanþörf á að halda vel á spöðunum í menntun pípulagningamanna því fyrir þá er og hefur verið nóg að gera.