Viðskiptafræðingurinn skellti sér í bifvélavirkjun
Það er aldrei of seint að setjast á skólabekk og láta drauma sína rætast. Þetta eru skilaboð Benedikts Ármannssonar 47 ára viðskiptafræðings á Akureyri sem hóf nám núna á haustönn í bifvélavirkjun í VMA.
Benedikt er Garðbæingur en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni tvítugur að aldri árið 1997. Hann hafði verið í sveit á nokkrum stöðum á Suðurlandi og myndað sterka tengingu við dreifbýlið austan fjalls. Hann sagði að sveitin hafi tvímælalaust haft mótandi áhrif á sig, þar hafi hann lært að vinna.
Að stúdentsprófi loknu fór Benedikt út á vinnumarkaðinn og vann hin ýmsu störf, m.a. hjá Nesdekki sem var í eigu Bílabúðar Benna. Hjá Bílabúð Benna starfaði Benedikt líka um tíma og fékk þannig ágæta innsýn í bílabransann. En síðan flutti hann með eiginkonu sinni til Akureyrar og innritaðist í viðskiptafræði á fjármálasviði við Háskólann á Akureyri. Að námi loknu lá leiðin aftur suður og Benedikt fór að starfa í fjármálageiranum og hann var við störf í Glitni banka þegar efnahagshrunið skall á. Bankakollsteypan gerði það að verkum að Benedikt missti vinnuna í Glitni og aftur fluttu þau hjónin til Akureyrar um áramótin 2008-2009 og hafa verið hér síðan.
Benedikt starfaði þá um tíma sem skrifstofustjóri hjá Búvís á Akureyri. Þau hjónin settu sitt eigið fyrirtæki á stofn, fóru í innflutning og tóku við rekstri batnavöruverslunarinnar Litla gleðigjafans í Sunnuhlíð. Einnig hélt Benedikt áfram að mennta sig og tók meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja í Háskóla Íslands og þau hjónin ráku til hliðar bókhaldsþjónustu fyrir nokkur fyrirtæki. Síðan lá leiðin til Dekkjahallarinnar á Akureyri þar sem Benedikt starfaði um skeið sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Nú síðast vann Benedikt að fjármálum hjá TDK (Becromal) á Akureyri.
Benedikt segir að hann hafi frá blautu barnsbeini haft mikinn áhuga á bílum, ekki síst vegna þátttöku föður hans og félaga hans í kvartmílunni forðum daga. Hann hafi því ágæta innsýn í marga hluti sem tengjast bílum og vélum og sé fær um að leysa ýmsa hluti í þeim efnum en þegar það tækifæri hafi komið upp í hendurnar á honum að innritast í nám til sveinsprófs í bifvélavirkjun hafi hann ekki getað látið það framhjá sér fara.
Mig langaði einfaldlega að breyta til og fara í eitthvað allt annað. Þegar mér bauðst að fara í þetta nám hér í VMA hugsaði ég með mér: Af hverju ekki? Bílar hafa alltaf verið mitt áhugamál og þannig sá það áfram fyrir mér. En núna er ég kominn í þetta nám og ætla að gera mitt besta til þess að ljúka því. En fjármálin munu hins vegar aldrei fara frá mér. Ég get séð fyrir mér að tvinna þetta saman á einhvern hátt í framtíðinni.
Í því ljósi að ég hef lokið bæði stúdents- og háskólaprófi þarf ég eingöngu að taka faggreinarnar í bifvélavirkjuninni. En það er auðvitað eitt og annað sem mig vantar úr grunndeild málmiðnaðar og ég reyni jafnframt að ná mér í þá kunnáttu. Þannig er ég til dæmis núna á suðunámskeiði sem kennararnar á málmiðnbrautinni eru með á vegum SÍMEY. Og ég þarf líka, svo dæmi sé tekið, að taka grunnteikninguna.
Benedikt er langelstur nemendanna í bifvélavirkjuninni en það finnst honum lítið mál, miklu frekar mjög gaman að læra með þessu unga fólki.
Ég nýt þess að vera í þessum nemendahópi og vonandi hafa krakkarnir eitthvað út úr því að hafa gamla kallinn með sér í þessu! Hvort námið mun taka mig tvö, þrjú eða fjögur ár, það verður bara að koma í ljós. En til þess að þetta gangi allt saman upp þarf góðan stuðning og skilning fjölskyldunnar. Konan mín styður mig vel í þessu og ég held að það hafi komið henni kannski hvað minnst á óvart að ég skyldi hella mér út í þetta.
Benedikt telur að almennt þyrfti að vera auðveldara fyrir fullorðið fólk að fara í nám.
Það er mjög dapurlegt að við sem þjóð getum ekki komið því fólki í verkmenntun sem hefur á því brennandi áhuga. Ég var mjög heppinn en því miður er of fátítt að fullorðnu fólki gefist kostur á að stunda verknám í dagskóla. Maður er aldrei of gamall til þess að læra eitthvað nýtt og skerpa hugann. Mín sýn er sú að fólk þarf að hafa möguleika á því að geta menntað sig alla ævi, ef það hefur áhuga á því.