Víðtæk brunaæfing í VMA
Þegar klukkan var fjórtán mínútur gengin í tíu í gærmorgun var brunakerfi VMA sett í gang og um leið voru ræstar nokkrar reykvélar við norðurinngang skólans og í rýminu fyrir framan kennslustofuna M 01. Brunaæfing var hafin. Þegar æfingin hófst voru sem næst sex hundruð nemendur í skólanum auk um fimmtíu starfsmanna. Starfsmenn höfðu sl. föstudag fengið upplýsingar um að til stæði að æfingin færi fram í þessari viku en það var ekki fyrr en seinnipartinn sl. þriðjudag sem staðfest var að hún yrði haldin í gær. Þeir kennarar sem voru með nemendahópa í tímum höfðu verið upplýstir um þeirra skyldur við rýmingu og aðrir starfsmenn, sem ekki voru að kenna á þessum tíma, voru dreifðir um allan skólann og klæddu sig í gul vesti þegar brunavarnakerfið fór í gang. Þeirra hlutverk var m.a. að fylgjast með rýmingunni og skrá hjá sér ýmsar athugasemdir, hvað virkaði og hvaða hnökra æfingin kynni að leiða í ljós. Áhersla var lögð á að nemendur hefðu fyrirfram ekki vitneskju um hvað til stæði þannig að aðstæður væru sem raunverulegastar.
Rýming skólahúsa VMA gekk greiðlega og nemendur og kennarar söfnuðust á bílaplön austan og vestan þeirra. Allir voru komnir út úr húsinu þegar Slökkvilið Akureyrar kom á staðinn. Áður en unnt var að hleypa nemendum og starfsfólki aftur inn þurfti að reykræsta húsin því gríðarlegur reykur myndaðist, fyrst og fremst í þeim rýmum þar sem reykvélarnar voru staðsettar en einnig barst hann m.a. inn í Gryfjuna. Um klukkustund eftir að æfingin hófst má segja að reykurinn hafi að mestu leyti verið á bak og burt og kennsla gat hafist á nýjan leik.
Anna María Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari VMA, segir að svo víðtæk brunaæfing hafi ekki verið í VMA síðan í febrúar 2011 og því hafi fyrir löngu verið tímabært að ráðast í hana. „Við höfum á síðasta ári unnið að ýmsu er lýtur að öryggismálum í skólanum, m.a. með gerð áhættumats fyrir skólahúsin. Við ákváðum að hafa brunaæfinguna í þessari viku vegna þess að í næstu viku verður öryggisvika hér í VMA og í öðrum starfsnámsskólum á landinu. Í öryggisvikunni verða m.a. flutt fræðsluerindi af ýmsum toga hér í skólanum og einnig verður á netinu hægt að fylgjast með erindum um öryggismál í öðrum skólum. Við töldum mikilvægt að ljúka brunaæfingunni fyrir þessa þemaviku um öryggismál,“ segir Anna María.
„Brunaæfingin hefur verið í farvatninu í töluverðan tíma og við höfum unnið náið með Eldvarnaeftirlitinu í þessum efnum. En lokaundirbúningurinn hefur verið síðustu tvo daga. Við höfum lagt áherslu á að æfingin væri eins nálægt raunveruleikanum og mögulegt er. Starfsmenn fengu að vita sl. föstudagskvöld að til stæði að halda æfinguna í þessari viku en tímasetning hennar var ekki staðfest fyrr en seinnipart þriðjudags. Að beiðni Eldvarnaeftirlitsins fengu nemendur ekki að vita af æfingunni fyrirfram til þess einmitt að hún yrði sem næst raunveruleikanum. Almennt held ég að æfingin hafi tekist vel og hún leiddi ýmislegt í ljós sem við munum fara yfir og leggja áherslu á að færa til betri vegar. Æfingin var einnig lærdómsrík fyrir Slökkvilið Akureyrar og aðra sem að henni komu. Það kom til dæmis í ljós að hér innanhúss virkaði fjarskiptabúnaður Slökkviliðsins ekki sem skyldi á milli manna, vaktstjórinn náði t.d. ekki sambandi við reykkafarana sem fóru m.a. upp stigannn upp á listnámsbraut, því þar voru nemendur sem geta ekki farið niður stigann og út úr húsinu til norðurs við slíkar aðstæður. Eina útgönguleiðin fyrir þá er að fara út á þak skólans. Þetta sambandsleysi í fjarskiptum var lærdómsríkt fyrir Slökkviliðið en ekki alveg ný tíðindi fyrir okkur sem störfum hér því staðreyndin er sú að það þarf að vera netpunktur í hverri kennslustofu til þess að netið hafi eðlilega virkni.
Við erum nú þegar byrjuð að skoða allar þær upplýsingar og athugasemdir sem komu út úr æfingunni, hún er til þess að læra af og færa hlutina til betri vegar þar sem úrbóta er þörf. Skólahús VMA eru margbrotin og flókin. Út af fyrir sig er ekki flókið að rýma kennslustofur og koma nemendum og kennurum út úr húsi en það eru bara svo ótal mörg önnur rými í skólanum sem þarf að ganga úr skugga um að fólk sé ekki inn í ef eitthvað út af bregður. Ég nefni í því sambandi salerni sem tilheyra álmum þar sem ekki er dagleg kennsla. Það liggur fyrir að Slökkviliðið hefur sérstaklega unna rýmingaráætlun fyrir nokkur hús á Akureyri og slökkviliðsstjóri hefur sagt að slíka áætlun þurfi einnig að gera fyrir VMA. Við höfum hér innanhúss verið að vinna rýmingaráætlun fyrir skólann og í kjölfar á þessari brunaæfingu munum við leggja lokahönd á hana. Næstu skref hjá okkur eru því að vinna úr þeim upplýsingum sem við fengum út úr æfingunni. Ég vænti þess að æfingin hafi leitt í ljós eins vel og mögulegt er hvað virkaði vel og hvað ekki,“ segir Anna María.
Frá því á síðasta ári hefur María Markúsdóttir starfað sem verkefnastjóri öryggismála í VMA. Hún vann að áhættumati fyrir skólann síðasta vor og hefur á liðnum vikum og mánuðum m.a. unnið að ýmsu er lýtur að brunavörnum. „Ég tók þátt í æfingunni og var meðan á henni stóð inn í byggingadeild og fylgdist með þar. Ég hafði því ekki sýn yfir hvernig þetta gekk í heild sinni en verkefni okkar í framhaldinu er að fara í gegnum allar ábendingar og athugasemdir í kjölfar æfingarinnar. Ég hef þá tilfinningu að almennt hafi æfingin gengið ágætlega og hún hafi leitt í ljós vankanta hér innanhúss og einnig hjá Slökkviliðinu og af öllu þessu getum við lært. Eitt af því sem ég veit að kom í ljós var að á einum stað í skólanum fór reyktjald milli rýma ekki niður eins og það átti að gera og SMS-boðunarkerfið hér innanhúss virkaði ekki sem skyldi. Allar þær upplýsingar sem við höfum fengið út úr þessu nýtast vel í þeirri rýmingaráætlun sem verið lokið við í framhaldinu. Ég tel að æfingin hafi veitt okkur ýmsar gagnlegar upplýsingar sem koma að góðum notum í framhaldinu,“ segir María.