Víðtæk rannsókn vegna teiknikennslu
Samhliða kennslu á listnámsbraut VMA stundar Björg Eiríksdóttir nám til meistaraprófs við Háskólann á Akureyri. Liður í náminu er víðtæk rannsókn, sem Björg vinnur í samvinnu við nemendur á listnámsbraut VMA, þar sem beitt er aðferðum starfenda- og listrannsókna við þróun teiknikennslu og mótun námsefnis.
Björg er þegar komin af stað með rannsóknina og er á þessari önn að afla gagna, m.a. með því að leggja fyrir spurningalista og taka viðtöl við nemendur í teikniáföngum sem hún kennir í VMA og þannig eru þeir þátttakendur í þessari 90 eininga rannsókn.
Björg bendir á að með nýrri menntastefnu sé sköpun sett í öndvegi sem einn af sex grunnþáttum sem eigi að ganga eins og
rauður þráður í gegnum allt skólastarf. Við innleiðingu þeirra hljóti vægi listgreina að aukast og listgreinakennarar gegni þar
lykilhlutverki. Því sé mikilvægt að búa vel að þeim, meðal annars með því að tryggja aðgang að góðu
námsefni.
Undanfarin tíu ár hefur Björg kennt teikningu við listnámsbraut VMA og þar áður var hún í sex ár kennari við
Síðuskóla á Akureyri. Hún segist hafa mikla ánægju af teiknikennslunni og finnist eftirsóknarvert að leita leiða til þess að
nálgast hana á áhrifaríkari hátt því oft sé það svo að nemendur blómstri þegar þeir komist að
hæfileikum sínum og sjái umhverfi sitt í nýju ljósi. „Námsefni á íslensku hefur verið af skornum skammti en ég hef
stuðst við efni úr ýmsum áttum án þess þó að safna skipulega gögnum um þá vinnu,“ segir Björg og bætir
við að undanfarin misseri hafi hún þó viðað að sér efni og komið skipulagi á það sem hún hafi átt fyrir með
það fyrir augum að útbúa námsefni sem gæti nýst sér og fleiri kennurum og tilraunakenna það.
Björg segir að tilgangur meistaraprófsrannsóknarinnar sé að þróa eigin teiknikennslu og móta námsefni til þess að efla myndlistarkennslu. Stefnt sé að því að setja námsefnið fram sem hugmyndabanka fyrir kennara sem þeir geti leitað í til að skapa aðstæður fyrir nám.