Víkingur Þorri með farseðilinn í Norrænu stærðfræðikeppnina
Í dag, 14. mars, er alþjóðlegur dagur stærðfræðinnar – og um leið er dagurinn í dag hinn svokallaði Pí-dagur sem er óræð tala og vísar til hlutfallsins milli ummáls og þvermáls hrings. Með námundun er Pí 3,1416. Þema alþjóðadags stærðfræðinnar í ár er sólkerfið.
Á alþjóðlegum degi stærðfræðinnar er gaman að segja frá því að Víkingi Þorra Reykjalín Sigurðssyni, nemanda á náttúruvísindabaut í VMA, hefur verið boðið að taka þátt í Norrænu stærðfræðikeppninni sem fer fram 30. mars nk. Víkingur og systir hans, Theodóra Tinna, náðu mjög góðum árangri í forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanema í október á síðasta ári og tryggðu sér sæti í úrslitum keppninnar sem fór síðan fram í Reykjavík 4. mars sl.
Forkeppnin var tvískipt, á neðra og efri stigi. Sem nýnemar kepptu bæði systkinin á neðra stigi og þar varð Víkingur Þorri efstur og Theodóra Tinna í 5.-7. sæti. Bæði tryggðu þau sér sæti í úrslitunum og þar hélt Víkingur Þorri uppteknum hætti og varð efstur nemenda á neðra stigi. Í heild var hann í 5.-7. sæti og og tryggði sér þar með þátttökurétt í Norrænu stærðfræðikeppninni, sem verður veflæg og fer fram 30. mars nk.
Hér að neðan er listi yfir þá 18 nemendur sem tryggðu sér sæti í Norrænu stærðfræðikeppninni. Eins og sjá má eru þeir úr fimm skólum; MR, Verzslunarskólanum, VMA, MK og MH.
Sæti |
Nafn |
Skóli |
1. |
Kirill Zolotuskiy |
Menntaskólanum í Reykjavík |
2. |
Matthías Andri Hrafnkelsson |
Menntaskólanum í Reykjavík |
3. |
Ísak Norðfjörð |
Menntaskólanum í Reykjavík |
4. |
Hrafnkell Hvanndal Halldórsson |
Menntaskólanum í Reykjavík |
5.-7. |
Kristján Dagur Jónsson |
Menntaskólanum í Reykjavík |
5.-7. |
Ragna María Sverrisdóttir |
Verzlunarskóla Íslands |
5.-7. |
Víkingur Þorri Sigurðsson |
Verkmenntaskólanum á Akureyri |
8. |
Tindur Eliasen |
Menntaskólanum í Kópavogi |
9.-10. |
Davíð Smith Hjálmtýsson |
Menntaskólanum í Reykjavík |
9.-10. |
Ólafur Steinar Ragnarsson |
Menntaskólanum í Reykjavík |
11. |
Álfrún Haraldsdóttir |
Menntaskólanum í Hamrahlíð |
12. |
Snorri Esekiel Jóhannesson |
Menntaskólanum í Reykjavík |
13. |
Kristófer Tómas Kristinsson |
Menntaskólanum í Reykjavík |
14. |
Símon Orri Sindrason |
Menntaskólanum í Reykjavík |
15.-16. |
Hildur Steinsdóttir |
Menntaskólanum í Reykjavík |
15.-16. |
Úlfgrímur Valgeirsson |
Menntaskólanum í Hamrahlíð |
17.-18. |
Robert Kristian Freysson |
Menntaskólanum í Reykjavík |
17.-18. |
Þór Ástþórsson |
Menntaskólanum í Reykjavík |
Fjórir efstu Íslendingarnir í Norrænu stærðfræðikeppninni tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í stærðfræði sem fara fram í Chiba í Japan í júlí í sumar. Það er því til mikils að vinna.
Stærðfræðin er sannarlega lifandi vísindagrein og hérlendir stærðfræðikennarar og áhugamenn um stærðfræði hittast reglulega og bera saman bækur sínar. Þeir hafa með samtök sem heita Flötur – samtök stærðfræðikennara. Á heimasíðu Kennarasambandsins segir m.a. um samtökin að markmið þeirra séu m.a. að veita stuðning við þróunarstarf á sviði stærðfræðimenntunar, að efla menntun stærðfræðikennara, að skapa vettvang fyrir umræður um stærðfræðikennslu og að veita kennurum stuðning við að takast á við ný og breytt viðfangsefni og vinnubrögð. Með þessum hætti vilji samtökin sameina íslenska stærðfræðikennara á öllum skólastigum í starfi, umræðum og skrifum um stærðfræðimenntun.
Ekki aðeins skiptast hérlendir stærðfræðikennarar á upplýsingum heldur sækja þeir nýja þekkingu erlendis frá. Þó svo að á yfirborðinu kunni stærðfræðin að taka litlum breytingum frá ári til árs er það nú svo að hún er lifandi vísindagrein og öll nálgun, framsetning og kennsluðferðir taka stöðugum breytingum. Ráðstefnur eru haldnar erlendis og efnt til námsstefna og eina slíka Geogebra veflæga ráðstefnu sat Elín Björk Unnarsdóttir, stærðfræðikennari í VMA á Flórída 17. febrúar sl.
Í byrjun mars var námsstefna sem Flötur – samtök stærðfræðikennari stóð fyrir á Bifröst og þar sem kom ýmislegt áhugavert fram. Þar var dreift splunkunýju veggspjaldi sem ber yfirskriftina Konur í stærðfræði. Þetta veggspjald varð til í Hollandsdeild samtakanna European Women in Mathematics – EWM-NL Það hefur verið þýtt á sautján tungumál og þýðingar á fjórtán önnur tungumál eru í undirbúningi. Hér á landi hafði Kristín Bjarnadóttir i veg og vanda að því að veggspjaldið var þýtt á íslensku og kennarar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands hafa aðstoðað við dreifingu þess. Veggspjaldinu er ætlað að vekja athygli á þætti kvenna í þróun stærðfræðinnar og mun ekki af veita því í gegnum tíðina hefur ímynd stærðfræðinnar óneitanlega verið nokkuð karllæg.