Víkka út sjóndeildarhringinn í Þrándheimi
Um liðna helgi fóru fimm stálsmíðanemar á málmiðnaðarbraut VMA ásamt Herði Óskarssyni, brautarstjóra, til Þrándheims í Noregi, þar sem þeir taka þátt í verklegum kennslustundum í Charlottenlund framhaldsskólanum, sem VMA hefur lengi átt gott samstarf við. Einnig sækja nemendurnir heim nokkra vinnustaði í Þrándheimi. Þeir verða ytra þessa viku og næstu eða fram að páskaleyfi.
Undanfarin ár hafa verið gagnkvæmar heimsóknir nemenda og kennara í VMA og Charlottenlund í Þrándheimi, sem um margt eru líkir skólar. Norskir nemendur hafa komið í verknám og heimsóknir til Akureyrar og einnig hafa nemendur í VMA farið í styttri heimsóknir – sbr. stálsmíðanemarnir núna – eða til lengri dvalar, t.d. nemendur í hársnyrtiiðn.
Hörður Óskarsson tók þessar myndir af stálsmíðanemunum Ágústi Mána Jóhannssyni, Margeiri Páli Björgvinssyni, Níelsi Birki Jóhannessyni, Vigni Sigurðssyni og Þórarni Kristjáni Ragnarssyni í Þrándheimi. Dagskrá nemendanna er þéttskipuð þessa viku og fram á fimmtudag í næstu viku en þeir eru væntanlegir til landsins föstudaginn 7. apríl.