Vill auka veg verknámsins
“Ég tel án nokkurs vafa að það þurfi áfram að gera sérstakt átak til þess að kynna þá möguleika sem iðn- og tækninám býður upp á. Þetta málefni hefur verið mér lengi hugleikið enda hef ég sjálfur lokið grafískri miðlun í Tækniskólanum og er núna að taka áfanga til þess að ljúka stúdentsprófi,” segir Davíð Snær Jónsson, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, sem birti áhugaverða hugvekju um stöðu iðn- og verknáms á Vísi.is í síðustu viku.
Davíð Snær segir óneitanlega eilífðar verkefni að brjóta niður múra gagnvart verknámi, ímyndaða múra sem séu fyrir hendi fyrst og fremst vegna fákunnáttu. Staðreyndin sé sú að allt of margir bæði væntanlegir framhaldsskólanemendur og foreldrar þeirra geri sér engan veginn grein fyrir þeim miklu möguleikum sem felist í því að fara í verknám. Það gefi starfsréttindi og með því að bæta við sig tilskildum áföngum geti nemendur einnig lokið stúdentsprófi - á skemmri tíma en margur hyggi. Þar með hafi nemendur í farteskinu verknám og stúdentspróf og standi afar sterkt að vígi gagnvart frekara námi á háskólastigi.
“Það er vissulega gleðiefni að ný ríkisstjórn sé með í stjórnarsáttmála sínum áherslu á iðn- og tækninám og ég bind miklar vonir við að menntamálaráðherra muni fylgja þessum áherslum eftir. Það hefur reyndar lengi verið talað á þessum nótum af hálfu stjórnmálamanna en ákvæði um þetta í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar bendir til þess að nú verði þetta meira en orðin tóm. Ég trúi því að við þetta verði staðið,” segir Davíð Snær og leggur áherslu á að á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar sé meiri ástæða til en nokkru sinni fyrr að stjórnvöld sýni hug sinni í verki og styðji við verknámið í landinu.
Eitt af þeim atriðum sem Davíð Snær telur að þurfi að skoða gaumgæfilega er að grunnskólanemendur fái kynningar sínar á framhaldsskólanum strax í 8. bekk – en ekki 10. eða 9. bekk, eins og nú er. Þannig gefist nemendum rýmri tími til þess að kynna sér það fjölbreytta námsval sem bíði þeirra í framhaldsskólanum. “Það er ýmislegt sem má gera til þess að ýta undir áhuga nemenda á verknámi. Til fjölda ára hefur fyrst og fremst verið boðið upp á matreiðslu og handavinnu inni í grunnskólunum. Allt gott um það að segja en ég tel að miklu meira þurfi að koma til. Mér er kunnugt um skóla í Hafnarfirði sem býður nemendum sínum upp á verklegan valáfanga í Tækniskólanum. Með þessum hætti fá nemendur að prófa sig áfram og fá jafnframt tilfinningu fyrir verknáminu. Þetta finnst mér jákvætt og tel að mætti gera miklu meira af slíku,” segir Davíð Snær.
Samband íslenskra framhaldsskólanema hefur á hverju skólaári ákveðnar áherslur í sínu starfi. Davíð Snær segir að stjórn sambandsins hafi ákveðið að ein af áherslum næsta skólaárs verði á verk- og tækninám. Hann segir að ekki hafi verið að fullu mótað hvernig það verði gert en að því sé unnið þessar vikurnar og nýrrar stjórnar Sambands íslenskra framhaldsskólanema verði að fylgja málinu eftir á næsta skólaári.