Vildu prófa eitthvað nýtt
Eftir að hafa verið í eitt ár í framhaldsskóla á heimaslóð ákváðu félagarnir og jafnaldrarnir Kristján Arndal Ómarsson og Ólafur Guðmundsson, sem báðir eru úr Borgarnesi, að venda sínu kvæði í kross og fara í húsasmíði í VMA. Þeir tóku sem sagt dágóða u-beygju og eru sáttir að hafa ákveðið að prófa eitthvað nýtt.
Að loknum 10. bekk grunnskóla í Borgarnesi lá leið þeirra beggja í Menntaskóla Borgarfjarðar – MB þar sem þeir luku fyrsta árinu á félagsfræðibraut. Þeir segja að áhugi þeirra hafi beinst í auknum mæli að verklegu námi. Næsti verknámsskóli er á Akranesi en þeir félagarnir vildu prófa að fara frekar norður í land og reyna fyrir sér í húsasmíði í VMA. Þeir segja að félagar þeirra úr 2006 árganginum í Borgarnesi hafi byrjað í VMA fyrir rúmu ári síðan og haft góð orð um skólann og hvatt þá til þess að skoða að koma líka norður. Það varð úr. Báðir búa þeir á heimavist VMA og MA – deila raunar herbergi þar – og láta vel af. Lífið sé gott á heimavistinni.
Í það heila segjast þeir alls ekki hafa séð eftir að skella sér norður, síður en svo. Það sé fínt að búa á Akureyri og þeir eru líka ánægðir með það sem af er í náminu í húsasmíðinni og vænta þess að ljúka því.
Að jafnaði segjast þeir fara í helgarfrí aðra hverja helgi heim í Borgarnes. Síðasta helgi var raunar nokkru lengri en venjulega vegna vetrarfrísdaganna.