Vilja brjóta niður kynjamúra
„Ég er mjög ánægður með þetta nám og ég tel það vera mjög góðan grunn í starf sjúkraflutnga sem ég hef áhuga á að starfa við í framtíðinni,“ segir Reginn Unason, þrítugur Akureyringur, sem er nú á öðru ári í sjúkraliðanámi í VMA
Reginn syndir á móti straumnum, ef svo má segja, því í gegnum tíðina hafa ekki verið margir strákar í þessu námi. Raunar er annar strákur á sama ári í náminu, Neil Kenneth Rosento, sem stefnir sömuleiðis að því að starfa sem sjúkraflutningamaður í framtíðinni. Neil tekur undir að námið sé skemmtilegt, fjölbreytt og áhugavert í alla staði og báðir hvetja þeir stráka til þess að gefa þessu námi ekkert síður gaum en öðru námi, full ástæða sé til að brjóta niður þessa klassísku kynjamúra í starfsvali.
„Ég er menntaður nuddari,“ segir Reginn, „og sú þekking sem ég fékk í því nýtist mér vel í náminu. Þetta er góð blanda af verklegu og bóklegu námi,“ segir Reginn en hann var á sínum tíma í vélstjórnarnámi í VMA og lauk þriðja stiginu. Fór þá á sjóinn en komst að raun um að sjómennskan ætti ekki nægilega vel við sig. Tók því sannkallaða u-beygju og telur sig núna vera kominn á réttan stað. „Mér finnst afar gefandi að annast um aðra og hjálpa fólki að láta því líða betur,“ segir Reginn.
Þeir Reginn og Neil kynntu sjúkraliðanámið á kynningardeginum sl. fimmtudag og það gerði einnig Linda Eygló Harðardóttir sem einnig er á öðru ári í náminu. „Mér líkar þetta mjög vel. Ég er lærður nuddari og langaði að bæta við mig. Fyrsta árið er fyrst og fremst bóklegt en núna erum við komin meira í verklegt nám, sem mér líkar vel. Þetta er mjög skemmtilegt og fjölbreytt nám og hópurinn er samhentur og skemmtilegur. Eins og staðan er núna stefni ég að starfa sem sjúkraliði í framtíðinni,“ segir Linda Eygló.