Framhaldsskólakeppni í 10 km hlaupi nk. þriðjudag
Nú er um að gera fyrir skokkara í VMA að reima á sig hlaupaskóna og taka þátt í framhaldsskólakeppni í 10 km hlaupi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði nk. þriðjudag, 23. september. Nemendum í VMA stendur til boða að fara suður yfir heiðar og taka þátt í Flensborgarhlaupinu og þurfa þeir einungis að greiða 500 krónur í mótsgjald (sundferð innifalin), greiða fyrir mat og útvega sér gistingu aðfararnótt miðvikudags.
Í Flensborgarhlaupinu verður framhaldsskólakeppni í 10 km þar sem verður krýndur framhaldsskólameistari karla og kvenna auk þess sem dreginn verður út fjöldi verðlauna.
Hlaupið hefst kl. 17:30 á þriðjudaginn og verður lagt af stað frá VMA að morgni dags. Eftir hlaup verður farið í sund, síðan borðað og gert eitthvað skemmtilegt um kvöldið. Gert er ráð fyrir heimkomu upp úr hádegi á miðvikudag.
Í stórum skóla eins og VMA er örugglega fullt af hlaupurum sem kynnu að hafa áhuga á að taka þátt í hlaupinu. Tekið skal fram að ekki er skilyrði að þátttakendur séu afreksíþróttamenn.
Takmarkaður sætafjöldi er í boði og því er um að gera að geyma ekki að skrá sig. Áhugasamir eru beðnir að hafa samband við Önnu Berglindi enskukennara (annaberglind@vma.is) eða Ásdísi námsráðgjafa (asdisb@vma.is).