Vinnustofa í VMA í VET4Change Evrópuverkefninu
Í liðinni viku, 8. – 12. maí 2023 var vinnustofa í VMA í Erasmus+ verkefninu VET4Change, sem vísar til Vocational Education and Training, sem myndi útleggjast á íslensku sem starfsnám og þjálfun. Verkefnið hófst árið 2020 og lýkur í haust.
Í stórum dráttum er í þessu verkefni verið að skoða dreifbýl svæði út frá möguleikum á starfsnámi og þróunar- og vaxtarmöguleikum svæðanna með ekki síst áherslu á ungt fólk.
Þetta Evrópuverkefni er nátengt InnoVET Erasmus verkefninu sem VMA tók þátt í fyrir kóvidfaraldurinn og þá var einmitt fundað í VMA í því verkefni, þar sem tóku þátt fyrir hönd VMA Hildur Friðriksdóttir og Jóhannes Árnason. Jóhannes er áfram fulltrúi VMA í VET4Change. Í vinnustofu InnoVET í VMA í mars 2018 voru nokkrir af þeim sem tóku þátt í VET4Change í VMA í síðustu viku.
Jóhannes Árnason segir mikið gagn af slíku evrópsku samstarfi því upp á borðið komi ólíkar hugmyndir sem nýtist þátttakendum í sínum heimalöndum. Aðstæður séu vissulega mismunandi en stóru spurningarnar sem fólkið í hinum dreifðu byggðum standi frammi fyrir í ólíkum löndum Evrópu séu af svipuðum toga, hvernig sé best unnið með þær breytingar sem óhjákvæmilega verði við flutning unga fólksins úr dreifbýli í þéttbýli?
Mikið var rætt um mikilvægi þess að hlusta á raddir unga fólksins, hvernig það vilji hafa hlutina og síðan sé unnið út frá því í skipulagsmálum og byggðaþróun almennt.
Jóhannes segir að staðreyndin sé sú að í gegnum tíðina hafi starfsnám verið nánast utan allrar umræðu í menntamálum á Íslandi en þetta sé þáttur sem þurfi að fá miklu meira vægi í umræðunni en áður. Í þessu verkefni hafi komið fram ýmsar mismunandi útfærslur í starfsnámi, t.d. þar sem nemendur eru til skiptis á vinnustað og í skóla.
Í þessu verkefni tók þátt fólk með gríðarlega reynslu í byggða- og skipulagsmálum og þróun dreifðra byggða. Punkturinn var að mestu settur aftan við VET4Change með vinnustofunni í VMA en þó er eftir að hnýta nokkra lausa enda með veffundi undir lok þessa mánaðar og minni viðburðum seinnipart sumar. En miðað er við að verkefninu verði að fullu lokið um mánaðamótin ágúst-september.
VET4Change er stýrt af MFR í Frakklandi, sem er net nokkur hundruð lítill dreifbýlisskóla í Frakklandi og fleiri löndum. Unnið er samkvæmt því fyrirkomulagi að nemendur eru til skiptis í skólanum og á vinnustað, viku í senn á hvorum stað. Aðrir samstarfsaðilar VMA í þessu verkefni eru MFR Grand Est sem starfar á svæði í austurhluta Frakklands og liggur að landamærum við Þýskaland, Le Cube í Frakklandi, sem er ráðgjafarstofa um byggðaþróun og tekur að sér ráðgjafarverkefni fyrir svæðisyfirvöld um þróun svæða, Estonian Leader Union í Eistlandi eru samtök leiðtoga um umræðu og þróun dreifbýlla svæða, Breza í Króatíu er stofnun sem styður við hópa í samfélaginu sem eiga erfitt uppdráttar, m.a. ungt fólk, BSC í Slóveníu er angi af byggðaþróunarskrifstofu í Gorenjska héraði í Slóveníu, Inter Mondes í Belgíu er ráðgjafarstofa um þróunarmál og loks GAL-Napoca Rúmeníu sem er atvinnuþróunarfélag í Napoca héraði í Transylvaníu.