VMA: 62% nemenda karlar - 38% konur
Núna á haustönn eru 1155 nemendur í dagskóla í VMA og þar af eru um 62% nemenda karlar og um 38% konur. Hlutfall karla af heildarfjölda nemenda hefur hækkað um sem næst tvö prósent frá fyrra ári. Í samanburði við bóknámsskóla eru hlutfallslega mun fleiri karlar í VMA. Skýringanna er m.a. að leita í því að í nokkrum deildum skólans eru til muna fleiri karlar en konur, t.d. í byggingadeild, rafiðnaðardeild, málmiðnaðardeild og vélstjórn. Hins vegar er mikill meirihluti kvenna í hársnyrtiiðn og sjúkraliðanámi.
Einnig eru áberandi fleiri karlar í viðskiptanámi í skólanum, sömuleiðis á náttúrfræðibraut, íþrótta- og lýðheilsubraut og í matvælanámi. Hins vegar hafa konurnar vinninginn í listnámi og á félagsfræðabraut.
Þetta má m.a. lesa út úr ítarlegum talnaupplýsingum um nemendur í VMA sem er að finna á heimasíðu skólans.
Um 23% nemenda skólans núna á haustönn eru eldri en 20 ára.
Varðandi búsetu nemenda kemur í ljós að um 58% nemenda eru frá Akureyri, um 18% úr Eyjafirði að Siglufirði meðtöldum og milli 7 og 8% prósent nemenda koma annars vegar af Norðvesturlandi og hins vegar úr Þingeyjarsýslum.