VMA brautskráði 121 nemanda
Brautskráning fór fram í Menningarhúsinu Hofi í dag að viðstöddu fjölmenni. VMA brautskráði 121 nemanda að þessu sinni.
Sigríður Huld Jónsdóttir brautskráði sinn fyrsta hóp sem fastráðinn skólameistari VMA, en fyrir nokkrum árum leysti hún Hjalta Jón Sveinsson af sem skólameistari í námsleyfi hans. Sigríður Huld var ráðin skólameistari í desember sl. þegar Hjalti Jón Sveinsson lét af störfum og tók við skólameistarastöðu Kvennaskólans í Reykjavík. Sigríður Huld sagði í upphafi brautskráningarræðu sinnar í dag að í ljósi þess að hún hafi gegnt starfi aðstoðarskólameistari VMA undanfarin rúmlega níu ár hafi hún að mestu vitað út á hvað starfið gengi „fyrir utan það að það gleymdist að segja mér í ráðningarviðtalinu að eftir nokkra daga yrði skólinn án nokkurs rekstrarfjár.“
Gott skólastarf á liðnum vetri
Sigríður Huld fór yfir skólastarfið á liðnum vetri og sagði það hafa gengið mjög vel, „enda hér mikill mannauður í starfsfólki og nemendum.“ Hún rifjaði upp að á liðnu hausti hafi hafist kennsla á stúdentsprófsbrautum skólans samkvæmt nýrri námsskrá. „Ég er sannfærð um að breytingarnar sem gerðar hafa verið eru til góðs fyrir nemendur og nýjar nálganir í námi efli nemendahópinn okkar með stúdentsprófi sem er góður undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi.“
Á skólaárinu hafa kennarar og stjórnendur VMA unnið að nýjum námsbrautarlýsingum í iðnnámi en þeirri vinnu er ekki enn lokið. „Við í VMA getum verið stolt af þeirri námsskrárvinnu sem hér hefur farið fram bæði í iðnnáminu og á stúdentsprófsbrautum, enda horft til okkar vinnu í öðrum skólum. Takmark okkar var alltaf að hafa áhrif í námsskrárvinnunni, ekki bíða bara eftir því hvað hinir gera heldur vera leiðandi og það hefur okkur tekist,“ sagði Sigríður Huld.
Hvað þýðir efling iðn- og tæknináms?
Skólameistari gat þess að á hátíðisdögum væri talað um að efla þyrfti iðn- og tækninám en hins vegar útskýrðu fáir í hverju slíkt fælist og hvað þyrfti til. „Iðn- og tækninám kallar á meiri tækjabúnað en hefðbundið bóknám. Framhaldsskólar landsins hafa eins og aðrar stofnanir þurft að draga úr rekstri og tækjakaup nánast engin verið ár eftir ár. Er svo komið að sumir skólar hafa dregist langt aftur úr í tækjabúnaði sem hefur á endanum áhrif á nám nemenda og áhrif á færni þeirra þegar þeir koma út í atvinnulífið. Ég hef líka talsverðar áhyggjur af því að fá ekki iðnmeistara með kennsluréttindi. Ástæður þess eru annars vegar að í langan tíma hefur ekki verið í boði kennsluréttindanám fyrir iðnmeistara við Háskólann á Akureyri og hins vegar að í sumum greinum getum við ekki boðið samkeppnishæf laun.“
FabLab smiðja í VMA í haust
Þrátt fyrir að skólanum hafi lengi búið við afar knappan fjárhagsramma sagði Sigríður Huld að VMA væri og hefði verið í stöðugri þróun. Í því sambandi nefndi hún að næsta haust verði í fyrsta skiptið í langan tíma boðið upp á nám í matreiðslu og þar að auki muni svokölluð FabLab smiðja, sem er langþráð aðstaða á Eyjafjarðarsvæðinu og nýtist við nám á öllum skólastigum, opna í haust. „Fab Lab er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Smiðjan verður jafnframt opin fyrir almenning og er það von þeirra sem að henni standa að hún muni auka tæknilæsi almennings og skapa möguleika á aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu með því að stuðla að nýsköpun.“
Öflugt félagslíf – „Litla hryllingsbúðin“ sett upp næsta vetur
„Félagslífið í skólanum hefur verið hefðbundið en öflugt í vetur. Það mæðir mikið á stjórn nemendafélagsins við skipulag og framkvæmd t.d. nýnemahátíðar, árshátíðar og söngkeppni. Nemendafélag VMA dró sig út úr stóru söngkeppni framhaldsskólanna vegna óánægju með fyrirkomulag hennar. Félagið hafði síðan forgöngu um að halda sérstaka söngkeppni framhaldsskólanna á Norður- og Austurlandi og var sú keppni haldin hér í Hofi. Fulltrúi VMA náði frábærum árangri í þeirri keppni og vann hana með glæsibrag. Leikfélag nemenda setti upp leikritið Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson nú á vordögum og hlaut mikið lof fyrir. Við sem sáum þessa sýningu vorum afar stolt og ég er ekki frá því að það hafi verið tár á hvarmi sýningargesta á frumsýningunni. Nú þegar er búið að ákveða að setja upp Litlu hryllingsbúðina næsta haust og verður sýningin sett upp í Samkomuhúsinu hér á Akureyri. Á síðustu árum hefur verið haldið þétt utan um starfsemi nemendafélagsins Þórdunu og stjórnendur og kennarar stutt nemendur í þeirra málum. Sem skólameistara finnst mér það forréttindi að eiga þessi góðu samskipti og samvinnu við nemendafélagið því það er ekki sjálfgefið. Ég vil þakka viðburðastjóra skólans, Pétri Guðjónssyni, fyrir að halda utan félagslífið. Pétur hefur starfað með okkur í tvö ár og hefur honum tekist að vinna vel með nemendum og eflt virkni þeirra í félagslífinu. Ég vil jafnframt þakka stjórn Þórdunu fyrir vel unnin störf og hlakka til næsta skólaárs,“ sagði Sigríður Huld.
Erlend samstarfsverkefni
Í ræðu sinni fór skólameistari yfir þau víðtæku samstarfsverkefni sem VMA tekur þátt í. „Við höfum þurft að hafna mörgum beiðnum um samstarf við erlenda skóla þar sem við ráðum einfaldlega ekki við meira í bili. Nemendur njóta góðs af þessum verkefnum, m.a. hafa sjúkraliðanemar farið til Danmerkur og Finnlands í starfsþjálfun og þá fóru þrír nemendur ásamt kennara til Noregs á þessari önn. Þessi tækifæri fyrir nemendur eru dýrmæt og efla sjálfstæði og víðsýni þeirra. Erlent samstarf gefur jafnframt kennurum og stjórnendum tækifæri til starfsþróunar ásamt því að kynnast skólastarfi í öðrum löndum. Ég hef sjálf tekið þátt í nokkrum samstarfsverkefnum sem hafa víkkað sjóndeildarhringinn, gefið mér tækifæri til að kynnast nýju fólki og heimsækja skóla í öðrum löndum. Í heimsóknum okkar í framhaldsskóla erlendis fáum við nýjar hugmyndir, getum borið saman hugmyndir okkar við aðra og lært nýja hluti. Aðstaða í skólum erlendis eru afar mismunandi en samanburðurinn við íslenska skóla er yfirleitt ekki okkur í hag. Aðstæður nemenda t.d. á Norðurlöndunum eru aðrar en íslenskra, þar má t.d. nefna að nemendur fá styrk á meðan þeir eru í námi, þeir greiða ekki fyrir námsbækur og endurnýjun tækja er meira í takt við tímann en hjá okkur. Þau samstarfsverkefni sem skólinn tekur þátt í eru fjármögnuð í gegnum styrki annað hvort Nordplus styrkjum eða Evrópusambandsstyrkjum. Án þessara styrkja gætum við ekki gefið nemendum og kennurum tækifæri til að kynnast námi og störfum í öðrum löndum. En við erum ekki bara á faraldsfæti. Við fáum erlenda gesti til okkar á hverri önn, bæði nemendur sem koma hingað til Akureyrar í starfsþjálfun og samstarfsfólk úr verkefnum sem skólinn tekur þátt í.“
Góður skóli fyrir alla nemendur
Sigríður Huld sagði að VMA vildi standa við það að skólinn væri góður fyrir alla nemendur. Að sjálfsögðu sé ætlast til þess að nemendur leggi sig fram en ekki sé horft til einkunna stéttar eða stöðu þegar nemendur séu teknir inn í skólann. „Við viljum geta boðið nemendum okkar upp á fjölbreytileika því það er það sem bíður þeirra í framtíðinni. Fjölbreytileikinn er einmitt það sem margir okkar nemenda nefna sem einn af helstu kostum skólans. Sú hæfni sem nemendur okkar fá við að takast á við breytingar og kynnast ólíku fólki sem stefnir í fjölbreyttar áttir er veganesti sem styrkir þá til framtíðar. Ögrunin er hjá þeim skólum sem taka við öllum nemendum óháð námsgetu og það er jafn mikilvægt að koma þeim áfram í framhaldsskólanum sem þurfa lengri tíma til að ná sínum námsmarkmiðum eins og þeim sem gengur alltaf vel að ná þeim.
Hlýhugur Hollvinasamtaka VMA
Sigríður Huld gat um Hollvinasamtök VMA sem voru stofnuð haustið 2012 en hlutverk þeirra er að efla kaup á tækjabúnaði við VMA og auka og styrkja tengsl skólans við fyrirtæki og stofnanir. Jafnframt hafa samtökin það hlutverk að efla tengsl við samfélagið, útskrifaða nemendur skólans og aðra þá sem bera hag hans fyrir brjósti. Til að efla þessi tengsl hafa samtökin leitað eftir stuðningi fyrirtækja og einstaklinga til eflingar tækjabúnaðar og aðstöðu í skólanum. „Stjórn Hollvinasamtakanna ákvað á fundi í vor að kaupa búnað í eina kennslustofu þar sem sett verður upp bíóstofa með öflugum skjávarpa, hljóðkerfi og stóru sýningartjaldi. Þessi bíóstofa mun auka möguleika nemendafélagsins til að hafa viðburði og t.d. horfa á íþrótta- eða tónlistarviðburði ásamt því að nýtast sem kennslustofa. Hlýhugur fyrrverandi nemenda og styrkur fyrirtækja í bænum gefa Hollvinasamtökunum tækifæri til að standa undir hlutverki sínu og vil ég þakka fyrir það framlag sem stjórnin og hollvinir hans hafa lagt fram til að efla skólastarf í VMA.“
Nemendur VMA af öllu landinu
Eins og vera ber koma nemendur VMA víðsvegar að af landinu og það átti að sjálfsögðu við um útskriftarhópinn í dag. Rúmlega 100 nemendur VMA eru á heimavistinni og stór hluti nemenda býr hjá ættingjum úti í bæ eða leigja húsnæði. „Í dag eru hér nemendur frá t.d. Akureyri, Dalvík, Húsavík, frá höfuðborgarsvæðinu, úr Þingeyjarsýslum, af Austurlandi, af Vesturlandi og svo mætti lengi telja. Ég fékk t.d. tölvupóst frá einum nemanda í gærkvöldi þar sem hann varð að afboða sig á útskrift vegna anna í sauðburði austur á landi. Að þessu sinni erum við að útskrifa 121 nemanda með 141 skírteini. Alls hafa 232 nemendur útskrifast frá VMA á þessu skólaári þar sem 111 nemandi var útskrifaður í desember s.l. Nokkrir nemendur eru nú að útskrifast með tvö og jafnvel þrjú prófskírteini. Sá möguleiki sem áfangakerfið gefur nemendum til að hafa fjölbreytileika í náminu sínu er nánast óendanlegur. Þeir nemendur sem velja að taka iðn- eða starfsnám og bæta síðan við stúdentsprófinu eru á margan hátt mjög vel búnir undir háskólanám. Sérstaklega á það við nemendur sem ætla sér í verk- eða tæknifræði þar sem mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hvernig það er að starfa við vélar og tæki eða á byggingarstað. Þá eru hér nokkrir sjúkraliðar sem útskrifast einnig sem stúdentar og ég veit að sá undirbúningur er afar góður fyrir allt háskólanám í heilbrigðisvísindum,“ sagði skólameistari.
Verðlaun og viðurkenningar
Að vanda voru veitt fjölmörg verðlaun og viðurkenningar til nemenda:
Logi Sigursveinsson, nýstúdent af náttúrufræðibraut – bókaverðlaun frá danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi árangur í dönsku. Jafnframt hlaut Logi verðlaun, sem Efnafræðifélag Íslands gaf, fyrir framúrskarandi námsárangur í efnafræði.
Bergþóra Heiðbjört Bergþórsdóttir, sjúkraliði – verðlaun sem Sjúkrahúsið á Akureyri gefur fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum sjúkraliða. Jafnframt lauk Bergþóra stúdentsprófi og fékk hún verðlaun fyrir námsárangur í ensku, sem SBA-Norðurleið gaf.
Úlfur Logason, nýstúdent af listnámsbraut – verðlaun frá Slippfélaginu fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum myndlistarkjörsviðs listnámsbrautar.
Ásdís Dögg Guðmundsdóttir, nýstúdent af listnámsbraut – verðlaun frá Kvennasambandi Eyjafjarðar fyrir bestan árangur í hönnunar- og textílgreinum.
Daníel Atli Stefánsson, húsasmiður – verðlaun frá BYGGIÐN - Félagi byggingamanna fyrir bestan árangur í húsasmíði.
Árna Bæring Halldórsson, vélstjóri – verðlaun frá Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri fyrir bestan árangur í vélstjórnargreinum.
Eva Berglind Ómarsdóttir, nýstúdent af félagsfræðabraut – verðlaun úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum, verðlaun frá Pennanum-Eymundsson fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, verðlaun frá A4 fyrir námsárangur í spænsku og verðlaun frá Gámaþjónustu Norðurlands fyrir bestan árangur á stúdentsprófi.
Haukur Þór Arnarson, nýstúdent af íþróttabraut – hvatningarverðlaun Hollvinasamtaka VMA, sem nú voru veitt í fyrsta skipti. Þessi verðlaun eru veitt nemanda sem hefur sýnt miklar framfarir í námi á námstímanum, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt. Sá sem hlýtur þessi verðlaun er nemandi sem hefur á námstíma sínum í skólanum sýnt mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínu. Hann hefur ætíð verið hjálpsamur og jákvæður í nemendahópnum og starfað með nemendafélaginu að ýmsum viðburðum í gegnum tíðina.
Ólafur Aron Pétursson, Guðrún Vaka Þorvaldsdóttir, Kristófer Hölluson og Egill Bjarni Friðjónsson – blómvendir til þeirra nemenda sem hafa setið í stjórn Þórdunu - nemendafélags skólans eða komið með öðrum hætti að félagslífinu s.s. tengt viðburðum og leiksýningum.
Viðhaldið vináttunni!
Í lok brautskráningarræðu sinnar beindi Sigríður Huld skólameistari orðum sínum að brautskráningarnemendum: „Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst; berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Á þessum svokölluðum framhaldsskólaárum kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni hvert til annars. Til hamingju.“
Ávörp við brautskráninguna
Þrjú ávörp voru flutt við brautskráninguna í dag:
Margrét Pétursdóttir, fyrrverandi kennari á sjúkraliðabraut og skólahjúkrunarfræðingur í VMA, flutti ávarp og afhenti Hollvinasamtökum VMA 200 þúsund krónur að gjöf. Þessir fjármunir eru afrakstur tónleika sem Margrét stóð fyrir nýverið í Gryfjunni í tilefni af sjötugsafmæli sínu. Fjármununum skal varið til þess að styðja fjárhagslega við þá nemendur VMA sem jafnframt stunda framhaldsnám í tónlist við Tónlistarskólann á Akureyri.
Birkir Örn Jónsson, nýstúdent að loknu húsasmíðanámi, flutti ávarp fyrir hönd brautskráningarnema.
Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari VMA, flutti kveðju til skólans og nýútskrifaðra nemenda fyrir hönd 30 ára útskriftarnema VMA.
Tónlistaratriði við brautskráninguna
Tvö tónlistaratriði voru við brautskráninguna. Annars vegar söng Elísa Ýrr Erlendsdóttur, nemandi á listnámsbraut, við undirleik Péturs Guðjónssonar á píanó og Birkis Arnar Jónssonar, nýstúdents, á gítar. Elísa sigraði bæði söngkeppni VMA og söngkeppni framhaldsskólanna á Norður- og Austurlandi núna á vorönn. Hins vegar söng Gyða Jóhannesdóttir, nýstúdent að loknu sjúkraliðanámi, við undirleik Péturs og Birkis Arnar.
Hilmar Friðjónsson og Ólafur Sigurðsson voru með myndavélarnar á lofti við brautskráninguna í dag. Hér er afrakstur vinnu þeirra:
Myndaalbúm 1
Myndaalbúm 2
Myndaalbúm 3
Myndaalbúm 4
Myndaalbúm 5
Myndaalbúm 6
Myndaalbúm 7