VMA fær heimild til að fullmennta kokka og þjóna
VMA hefur fengið heimild til þess að útskrifa matreiðslu- og framreiðslumenn en til þessa hafa nemendur þurft að fara suður yfir heiðar og ljúka náminu þar. Marína Sigurgeirsdóttir, brautarstjóri matvælabrautar VMA, segir þetta mjög ánægjulegt, enda hafi það verið baráttumál skólans til margra ára að fullmennta kokka og þjóna.
„Verkmenntaskólinn fékk í sumar inn um lúguna heimild til þess að fullmennta kokka og þjóna sem er gríðarlega stór áfangi því þetta þýðir að við verðum ekki bara með grunnnámið heldur byggjum við hér upp framhaldsnám og nemendur geta lokið sínu námi hér. Nemendur þurfa því ekki lengur að fara í burtu til þess að ljúka sínu námi. Þetta skiptir því miklu námi fyrir nemendur og einnig fyrir til dæmis ferðaþjónustuna á svæðinu sem kallar eftir því að fá fleira menntað fólk á þessu sviði. Nemendur á samningum hjá veitingastöðum hér á svæðinu geta þá unnið með skólanum sem þýðir að viðkomandi vinnustaður missir starfsmanninn ekki frá sér á meðan á náminu stendur,“ segir Marína. Hún segist vonast til þess að strax næsta haust verði unnt að bjóða upp á framhaldsnám við matvælabraut VMA, að minnsta kosti í matreiðslunni. Marína segir að gott samstarf við atvinnulífið á svæðinu sé lykilatriði, varðandi námssamninga og fleira, og án nokkurs vafa verði það mjög gott hér eftir sem hingað til. „Við höfum verið með kjötiðnaðarnám hér og það hefur gengið mjög vel. Hins vegar hafa matreiðslu- og framreiðslumenn þurft að taka tveggja anna nám fyrir sunnan og það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir nemendur, þó ekki væri fyrir annað en hversu erfitt er að fá þar leiguhúsnæði. Það er heilmikið byggðamál að geta nú boðið upp á allt þetta nám hér fyrir norðan,“ segir Marína.
Aukin áhersla á ferðaþjónustuna í nýrri námsskrá
Á þessu skólaári er kennsla á matvælabraut VMA samkvæmt nýrri námsskrá sem Marína segir að sé afrakstur samstarfs
fjögurra skóla – Hótels- og matvælaskólans í Kópavogi, VMA, Fjölbrautskóla Suðurlands á Selfossi og
Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Keflavík. „Við byrjum á þessari haustönn að kenna samkvæmt þessari námsskrá og
við köllum þetta nám „Grunnnám matvæla- og ferðagreina“ af þeirri einföldu ástæðu að það er erfitt að
skilja matvælagreinarnar frá ferðaþjónustunni sem er eins og allir vita mjög vaxandi og hún kallar eftir auknum mannafla. Við erum að gefa
ferðaþjónustunni aukið vægi í náminu og horfum til ýmissa þátta innan þeirrar greinar og liður í því er
nýr áfangi „Þjónustusamskipti“ sem eiga að gera okkar nemendur hæfari til þess að sinna fjölþættri
þjónustu,“ segir Marína Sigurgeirsdóttir.
Á meðfylgjandi mynd eru nokkrir nemendur sem voru í tíma hjá Marínu í pönnukökubakstri. Hver veit nema að þarna sé að finna matreiðslu- eða framreiðslumenn framtíðarinnar?