VMA fær öfluga loftdælu
Á dögunum var VMA afhent öflug loftdæla með dyggum stuðningi Bílanausts og sex fagfélaga. Bragi Finnbogason, brautarstjóri bíliðngreina í VMA, segir að dælan sé kærkomin og muni nýtast nokkrum af verknámsdeildum skólans mjög vel.
Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA, vill þakka Bílanausti og fagfélögunum sex þennan öfluga stuðning við skólann. Í fjárþrengingum síðustu ára í framhaldsskólum landsins hafi ekki verið unnt að endurnýja tækjabúnað eins og nauðsynlegt er og því sé allur slíkur stuðningur atvinnulífsins ómetanlegur.
Þau sex fagfélög sem um ræðir eru: Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri, FIT – félag iðn- og tæknigreina, Berg – félag stjórnenda, VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna, Rafiðnaðarsamband Íslands og Byggiðn – félag byggingamanna.
Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, segir mikilvægt að námið í VMA sé sem öflugast og það sé gagnkvæmur hagur skólans og atvinnulífsins að tækjabúnaður í verknáminu sé sem allra bestur og standist tímans tönn.
„Þessi loftdæla er mun öflugri en gamla dælan og því mjög kærkomin. Dælan nýtist grunndeild málmiðnaðar, vélstjórn og okkur í bifvélavirkjuninni. Hjá okkur er loft notað til þess að knýja verkfæri og loftdælan nýtist okkur líka vel til hreinsunar og auðvitað einnig til þess að blása í dekk. Almennt má segja að loftdæla sé notuð mjög mikið á bifreiðaverkstæðum. Að fá svo öfluga loftdælu gerir það að verkum að ekki verður hætta á þrýstingsfalli þó svo að allar viðkomandi verknámsdeildir noti mögulega mikið loft á sama tíma,“ segir Bragi Finnbogason, brautarstjóri bíliðngreina í VMA.
Hilmar Friðjónsson var með myndavélina á lofti og tók þessar myndir þegar loftdælan var afhent VMA.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Helgi Jónsson frá Rafiðnaðarsambandinu, Heimir Kristinsson frá Byggiðn, Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri,Halldór Bragason, verslunarstjóri Bílanausts á Akureyri og Hjalti Jón Sveinsson skólameistari. Að baki þeim er loftdælan góða.