VMA fékk bronsið í Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna
Það verður ekki annað sagt en að nemendur í áfanga í stjórnun hjá Sunnu Hlín Jóhannesdóttur hafi staðið sig hreint ljómandi vel í Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna, sem var haldin á dögunum. Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík heldur þessa keppni árlega og vegna kórónuveirufaraldursins var hún haldin í ár á Zoom. Tuttugu og tvö lið tóku þátt í keppninni, sem er metfjöldi þátttökuliða, þar af skipuðu nemendur í stjórnunaráfanganum hjá Sunnu sex lið. Þetta var frumraun VMA í keppninni og varð eitt af sex liðum skólans – sem var kallað Framsýn - í þriðja sæti keppninnar. Liðið skipuðu Alfreð Aðils Sigurðarson, Amos Esra Theódórsson, Þorri Már Þórisson og Hinrik Hauksson. Fyrir bronsverðlaunin fengu þeir félagarnir að launum gjafabréf á Lemon, Fly over Iceland og Blackbox. Vel gert!
En út á hvað gengur Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna? Í stórum dráttum felur hún það í sér að þátttakendur takast á við það verkefni að stjórna fyrirtæki með sem bestum árangri – og var stjórnun súkkulaðiverksmiðju verkefni dagsins. Keppnin fór fram í Edumundo hermi. Súkkulaðiverksmiðjan framleiddi fjórar súkkulaðitegundir og á markaðnum ríkti hörð samkeppni, rétt eins og er í raunveruleikanum. Við sögu kom flest það sem stjórnendur fyrirtækja þurfa að fást við, t.d. markaðsmál, samkeppni, uppsetning rekstraráætlana, stefnumótun fyrirtækisins o.fl.
Fjórmenningarnir í Framsýn segja að þátttaka í þessari keppni hafi verið í senn skemmtileg og gefandi. Í meginatriðum sé mikilvægast að vera fljótur að taka ákvörðun en hún þurfi jafnframt að vera rétt. Yfirvegun sé lykilatriði. Ein röng ákvörðun geti eyðilagt allt í vexti og viðgangi fyrirtækis.
Lið úr MR vann keppnina í ár og lið úr Verzlunarskóla Íslands varð í öðru sæti. Bronsverðlaunin komu síðan í hlut VMA, sem fyrr segir.
Stjórnunaráfangann í VMA sitja nemendur af ýmsum brautum skólans enda er hann afar gagnlegur fyrir alla. Áhersla er lögð á mannleg samskipti, markmiðssetningu og að vinna með styrkleika og veikleika hvers og eins.