VMA keppir í Gettu betur í kvöld
Fyrsta umferð hinnar árlegu spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, er nú komin í fullan gang í Ríkisútvarpinu. Fyrstu viðureignirnar voru sl. mánudag og síðan var haldið áfram í gærkvöld. Í síðustu keppni þessarar fyrstu umferðar mætir lið VMA til leiks í kvöld og keppir við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Viðureignin verður í beinu streymi á vef Ríkisútvarpsins kl. 19:20.
Spyrill í keppninni í ár er Kristinn Óli Haraldsson - Króli en dómarar og spurningahöfundar eru Helga Margrét Höskuldsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason og Sigurlaugur Ingólfsson.
Að þessu sinni taka 25 framhaldsskólar þátt í Gettu betur. Einn þeirra situr hjá núna í fyrstu umferð keppninnar í útvarpi, sigurvegari síðustu keppni, Menntaskólinn í Reykjavík.
Næsta umferð í útvarpi verður í næstu viku, dagana 17. og 19. janúar, og sem fyrr verða úrslitaviðureignirnar í sjónvarpi.
Síðastliðið mánudagskvöld komust áfram í næstu umferð Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Fjölbrautaskóli Vesturlands og Menntaskólinn á Ísafirði. Í gærkvöld komust áfram Menntaskólinn í Hamrahlíð, Verzlunarskóli Íslands, Framhaldsskólinn á Laugum og Menntaskólinn í Kópavogi.