Fara í efni

VMA mætir ME í Gettu betur í kvöld

Málverkið fína sem nemendur standa í er eftir Svanhvíti Líf Bjarnadóttur fyrrum nemenda í VMA
Málverkið fína sem nemendur standa í er eftir Svanhvíti Líf Bjarnadóttur fyrrum nemenda í VMA

Gettu betur lið VMA verður í eldlínunni í kvöld í annarri umferð keppninnar og mætir þá liði Menntaskólans á Egilsstöðum. Í fyrstu umferð keppninnar hafði VMA-liðið betur gegn liði Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Lið VMA skipa Þórir Nikulás Pálsson, Theodóra Tinna R. Kristínardóttir og Emilía Björt Hörpudóttir.

Í tilefni af keppninni í kvöld verður Gettur betur Kahoot í löngufrímínútunum kl. 9:40 í dag og eru nemendur hvattir til að mæta þangað og taka þátt.

Fyrstu umferð keppninnar lauk á mánudag í síðustu viku og í kjölfarið var dregið í næstu umferð keppninnar sem hefst í kvöld. Þá mætast:

Verzlunarskóli Íslands - Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi - Fjölbrautaskólinn við Ármúla
Kvennaskólinn í Reykjavík - Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
Menntaskólinn á Egilsstöðum - Verkmenntaskólinn á Akureyri

Viðureign ME og VMA verður sú síðasta í kvöld og hefst kl. 20:30.

Og næstkomandi fimmtudagskvöld, 23. janúar, mætast:

Menntaskólinn við Hamrahlíð - Framhaldsskólinn á Húsavík
Menntaskólinn í Reykjavík - Menntaskólinn að Laugarvatni
Menntaskólinn við Sund – Borgarholtsskóli
Menntaskólinn á Akureyri - Flensborgarskólinn í Hafnarfirði

Sigurvegarar úr viðureignunum í kvöld og nk. fimmtudagskvöld tryggja sér áframhaldandi þátttöku í keppninni sem færist af Rás 2 yfir í sjónvarpið.

Theodóra Tinna, ein þriggja liðsmanna VMA, segist vera spennt fyrir viðureign kvöldsins og stefnan sé auðvitað að vinna og komast í sjónvarpið. Hún segir að liðið hafi hist reglulega með Baldri Sverrissyni þjálfara og stillt saman strengina og núna í aðdraganda viðureignanna á Rás 2 hafi liðið hist oftar. Theodóra segir að eins og gengur sé hver og einn í liðinu með ákveðin áhugasvið en síðan leggi liðsmenn saman krafta sína á ýmsum sviðum. Hún segist fylgjast bærilega vel með fréttum og reyni að gera það enn betur núna í aðdraganda keppninnar til þess að vera betur undirbúin.