VMA-nemar taka þátt í Lýsu í Hofi
Í dag og á morgun er Lýsa - rokkhátíð samtalsins í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Dagskráin er afar fjölbreytt og af ýmsum toga um málefni samfélagsins. Fjörlegar umræður skapast í bland við tónlistaratriði og ýmsar uppákomur. Nemendur í VMA eru í hópi þeirra fjölmörgu sem taka þátt í Lýsu.
Meðal þess sem er rætt í dag á Lýsu er barnvænt sveitarfélag og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna en vinna við innleiðingu barnasáttmála UNICEF er langt komin á Akureyri og var aðgerðaráætlun barnvæns sveitarfélags samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar í febrúar sl.
Á Lýsu í dag ræða ungmenni í 8.-10. bekkjum grunnskóla og fyrstu tveimur bekkjum framhaldsskóla, þar á meðal átta nemendur úr VMA, um stöðu ungs fólks á Akureyri, hvað sé vel gert og hvað megi betur fara. Við það er miðað að niðurstöður úr þessari orðræðu verði kynntar á degi barnsins 20. nóvember 2019.
Nemendurnir úr VMA sem taka þátt í umræðunum í Hofi (með þeim er Valgerður Dögg Jónsdóttir kennari) eru Barði Þór Atlason, Katrín Mjöll Ingibjargardóttir, Hekla Guðrún Þrastardóttir, Sveinn Brimar Jónsson, Eyþór Daði Eyþórsson, Anna Kristjana Helgadóttir, Embla Björk Jónsdóttir og Níels Kristinn Ómarsson.