Fara í efni

VMA-Stokkhólmur-Borås-Reykjavík

Andrea Ósk Margrétardóttir, fatahönnuður.
Andrea Ósk Margrétardóttir, fatahönnuður.

Þess eru mörg dæmi að nemendur sem hafa lokið námi af textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA hafi haslað sér völl í fatahönnun – bæði hér heima og erlendis. Á Hönnunarmars í Reykjavík undir yfirskriftinni Fatahönnuðir framtíðarinnar sýndu hönnun sína á síðasta ári fatahönnuðirnir Tekla Sól Ingibjartsdóttir og Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir - Thora Stefansdottir, sem báðar útskrifuðust af textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA, og í ár var Andrea Ósk Margrétardóttir ein sex hönnuða sem voru valdir til að sýna fatahönnun sína á Hönnunarmars á sýningunni Uppspretta í Landsbankahúsinu þann 4. apríl sl.

Andrea Ósk brautskráðist stúdent af textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA í desember 2017. Í framhaldinu fór hún til Stokkhólms í fornám fyrir BA-nám í Beckmans Designhögskola í fatahönnun og var þar í tæpt eitt ár. Þetta var á þeim tíma þegar heimsfaraldur covid skall á og af þeim sökum kom hún eilítið fyrr heim en ráð var fyrir gert og kláraði námið frá Íslandi í fjarnámi. Andrea hafði séð fyrir sér að halda áfram námi í Stokkhólmi en hlutirnir tóku þá stefnu að hún fór í BA-nám í fatahönnun árið 2020 til Borås í textílháskóla Svíþjóðar – The Swedish School of Textiles. Hún segist síður en svo sjá eftir því, námið hafi verið mjög gott og aðstaðan sérstaklega góð. Í Borås hefur sögulega verið rík hefð fyrir textíl og því kemur ekki á óvart að hágæðanám í textíl sé í boði í þessari í um 100 þúsund íbúa borg, sem er á milli Jönköping og Gautaborgar. BA-prófi í fatahönnun lauk Andrea 2023 og hefur síðan unnið að fjölmörgum verkefnum, bæði í Svíþjóð og hér heima. Hún hefur síðustu misseri búið í Gautaborg í Svíþjóð en tók nýverið þá ákvörðun að flytja aftur til Íslands og ætlar að hasla sér völl í fatahönnuninni í Reykjavík og sér fyrir sér að verða í verkefnum hér heima og einnig muni hún verða í ýmsum verkefnum erlendis.

Á heimasíðu Andreu gefur að líta eitt og annað af hennar hönnun. Hönnun sína kallar Andrea Reia Kama. Til þessa hefur Andrea ekki aðeins hannað fötin, hún hefur einnig saumað, prjónað eða ofið þau. Hún segir að á þessu kunni að verða sú breyting að hún einbeiti sér að hönnuninni en fái aðra til þess að sauma flíkurnar. Allt eigi þetta eftir að koma í ljós í framtíðinni.

En hvernig lýsir Andrea fatahönnun sinni? „Ég held að hún endurspegli svolítið náttúruna. Ég legg áherslu á góð, náttúruleg efni eins og silki, ull og bómull. Einnig er ég með einföld snið en lykilatriðið finnst mér vera einfaldleikinn og að vinna hann með gæðaefnum,“ segir Andrea.

Andrea rifjar upp að þegar hún fór á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA hafi hún látið sig dreyma að verða fatahönnuður og því komi ekki alveg á óvart að hún sé núna komin á þennan stað í lífinu. „Ég vissi auðvitað ekkert um hvort þessi draumur myndi rætast en svo hafa hlutirnir bara þróast í þessa átt og þegar ég horfi til baka var námið í VMA alveg ótrúlega góður grunnur sem nýttist mér vel í fornáminu í Stokkhólmi og áfram í BA-náminu í Borås,“ segir Andrea.

Fatahönnunin er afar lifandi suðupottur og Andrea segist vera spennt að sjá hvert næstu ár fari með sig í hönnuninni. Hún segist hafa mjög góða tilfinningu fyrir þessum nýja lífskafla og horfi til þess með mikilli tilhlökkun að vinna á Íslandi með öðrum hönnuðum og listafólki, dýrmætt sé að bera saman bækur og fá stuðning og hvatningu frá öðrum sem eru að gera svipaða hluti. Í ljósi þess að hönnun Andreu er tengd náttúrunni segir hún mikilvægt að vera hér heima, bókstaflega sem hluti af íslenskri náttúru, sem gefi óendanlegan innblástur.

Hér eru nokkrar myndir af hönnun Andreu Óskar í gegnum tíðina og á hönnunarsýningunni Uppsprettu fyrr í þessum mánuði.