VMA tekur á móti gestum frá Noregi, Svíþjóð og Eistlandi
Dagana 12. -17. september n.k. mun skólinn taka á móti rúmlega 30 manna hópi 17 - 19 ára framhaldsskólanemenda frá Svíþjóð, Noregi og Eistlandi sem eru þátttakendur í verkefni ásamt okkur í VMA sem kallast Nordic mindfulness. Verkefnið er samstarfsverkefni skóla í Noregi, Svíþjóð, Eistlandi og VMA. Nemendur frá VMA hafa farið til Noregs og Svíþjóðar á vegum þessa verkefnis og nú er komið að Íslandi að taka á móti hópnum. Verkefnið snýr að náttúrunni og heilbrigði, hvernig þjóðirnar upplifa þessa þætti og hvernig hægt sé að nýta þessa þætti til ferðamennsku og tengja við menningu.
Eitt af markmiðum verkefnisins er að kynnast vel menningu landanna og liður í því er að nemendur gista í heimahúsum. Það að
bjóða gestum upp á heimagistingu er til að nemendur fá meiri innsýn í menningu hvers lands og fái að upplifa venjulegt heimilislíf
í móttökulandinu. Enska er það tungumál sem notað er í verkefninu og er það styrkt af NordPlus. Heimasíða verkefnisins er http://nordicmindfulness.net
Nú leitum við til nemenda skólans með gistimöguleika í heimahúsum fyrir þessa erlendu gesti. Skemmtilegast er að komast á
heimili þar sem einhver er á aldrinum 16-20 ára en það er ekki skilyrði. Þeir sem geta tekið gesti að sér þurfa að leggja til
svefnpláss, morgunmat og bjóða einu sinni upp á kvöldmat. Annars er mikil dagskrá í gangi og gestirnir uppteknir í ýmsum viðburðum
allan tímann.
Gestirnir frá Svíþjóð koma 12. september en hinir 13. september, allir eru hér til 17. september. Á laugardeginum verður farið austur í
Mývatnssveit og gist þar en komið til baka til Akureyrar á sunnudeginum, þannig að gestirnir gista ekki aðfaranótt sunnudagsins. Gert er ráð
fyrir að gestgjafar bjóði gesti sínum í kvöldmat á fimmtudagskvöldinu í heimahúsi.
Þeir sem hafa áhuga hafi samband við undirritaða eða Ólaf Björnsson íþróttakennara sem hefur umsjón með skipulagi
heimsóknarinnar. Við vonum svo sannarlega að í okkar stóra nemendahópi séu nemendur sem vilja og geta tekið á móti gestum.
Þeir sem geta orðið við þessari ósk sendi tölvupóst sem fyrst til Ólafs olafur@vma.is
Frá starfi Nordic Mindfulness