VMA þátttakandi í evrópsku verðlaunaverkefni
Á dögunum var tilkynnt að evrópska samstarfsverkefnð SOS Mobilities, sem VMA tók þátt í, hefði hlotið viðurkenningu frá Miðstöð um þróun á starfsnámi í Evrópu. Verkefnið hófst undir lok árs 2013 og því lauk á síðasta ári. Af hálfu VMA tóku þátt í verkefninu Harpa Jörundardóttir, Ómar Kristinsson og Haraldur Vilhjálmsson.
Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri starfsbrautar og brautabrúar VMA, segir að markmiðið með SOS-mobilities verkefninu hafi fyrst og fremst verið að koma upp skipulagi sem mætti nota til að hvetja nemendur, sem eigi við einhvers konar námsörðugleika, eða jafnvel námsleiða, að etja, sem og kennara, til að auka hlut þessara nemenda í nemendaskiptum í starfsnámi á evrópska vísu. Harpa segir að þessi nemendahópur hafi í gegnum tíðina haft færri tækifæri til að taka þátt í slíkum verkefnum og síður sóst eftir þeim, kannski ekki síst vegna feimni eða kvíða eða jafnvel ekki vitað af þeim tækifærum sem í boði eru. Dæmin hafi sýnt að slík nemendaskipti hafi vakið áhuga nemenda (eða endurvakið) og aukið ábyrgðartilfinningu þeirra gagnvart eigin námi.
Sem fyrr segir hefur þetta verkefni fengið viðurkenningu frá CEDEFOP (Miðstöð um þróun verknáms í Evrópu) og verið valið sem hluti af einhvers konar verkfærakassa á vegum miðstöðvarinnar sem miðar að því að sporna gegn brottfalli úr námi.
Harpa segir að niðurstöður verkefnisins og afurðir þess séu gátlistar og flæðirit sem nái utan um allt ferlið, hvort sem verið sé að senda nemanda eða taka á móti nemanda í nemendaskiptum, allt frá auglýsingu um nemendaskipti til þakkarbréfs nemanda til gestgjafa sinna.“Enn höfum við hér í VMA ekki sent frá okkur nemendur sjálf en höfum tekið á móti nemendum frá Þýskalandi og Frakklandi sem hafa verið í vettvangsnámi hjá leikskólum Akureyrarbæjar og í Slippnum,“ segir Harpa Jörundardóttir.
Nánari upplýsingar um verkefnið og afurðir þess má sjá hér.