VMA þátttakandi í FING-verkefninu
Verkmenntaskólinn tekur þátt í norrænu verkefni sem nefnist FING. Um er að ræða upphafsstafi þátttökulandanna, Færeyja, Íslands, Noregs og Grænlands, og vísar til samstarfs landanna á ýmsum sviðum sem tengjast tæknimenntun, öryggismálum o.fl.
Skólar í öllum löndunum fjórum eru þátttakendur og er skóli í Stavanger í Noregi – Stavanger offshore tekniske skole – leiðandi í verkefninu. Fulltrúi Grænlands er KTI í Sisimiut (Greenland School of Minerals and Petrolium) og fjórði skólinn er Vinnuháskúlin í Þórshöfn.
Benedikt Barðason áfangastjóri VMA er fulltrúi skólans í þessu verkefni. Hann segir að það hafi reynst mjög lærdómsríkt í alla staði og hann telur mikilvægast að sú þekking sem verði til í þessu verkefni verði eftir inn í viðkomandi skólum og nýtist þeim í kennslu og fræðslu, fyrir bæði kennara og nemendur. „Almennt má segja að áherslan í þessu verkefni sé á tækni, öryggis- og umhverfismál. Frá því að við byrjuðum með verkefnið hafa áherslurnar breyst töluvert. Til að byrja með var horft til ýmissa mála sem tengdust olíuiðnaðinum, ekki síst nutum við góðs af þeirri þekkingu sem er á því sviði í Stavanger í Noregi. Á þeim tíma var einnig mikill áhugi í hinum löndunum á olíuleit, hér á Íslandi horfðu menn t.d. til Drekasvæðisins. Með lækkandi olíuverði má segja að áherslurnar í verkefninu hafi breyst og nú erum við meira að horfa til öryggismála og nýtum okkur ekki síst reynslu Norðmanna í þeim efnum,“ segir Benedikt.
Afsprengi af þessu verkefni var námskeið í Noregi í tengslum við stroffur og hífingar sem tveir kennarar í vélstjórn, Vilhjálmur G. Kristjánsson og Jóhann Björgvinsson, sóttu og luku. Þekking þeirra félaga nýtist vel í kennslunni í VMA og stefna þeir að því að halda fljótlega námskeið í því sem þeir lærðu. „Við höfum verið að horfa á þann möguleika að hafa næst námskeið um vökvakerfi sem yrði leitt af skólanum í Stavanger en þátttakendur gætu tekið bóklega hlutann í fjarnámi og síðan yrði sá verklegi í Noregi. Vonandi verður unnt að koma þessu á einhvern tímann eftir áramót,“ segir Benedikt og bætir við að hér sé um að ræða mjög góða leið til endurmenntunar fyrir kennara.
Síðasti fundur í þessu FING-verkefni var dagana 5.-6. nóvember sl. og var hann að þessu sinni haldinn í Porto í Portúgal, sem helgaðist af því að verkefnastjórinn frá Stavanger, sem er af portúgölskum ættum, var þar í háskóla og nýtti sér þessi tengsl fyrir FING-verkefnið. Meðal annars var tækniháskólinn í Porto sóttur heim og fengu þátttakendur fræðslu um skólann og námsframboðið þar. Einnig kynntu þátttakendur í FING verkefninu það fyrir nemendum tækniháskólans og var Benedikt Barðason einn fyrirlesara. Hann kynnti Verkmenntaskólann og kom á framfæri ýmsum upplýsingum um Ísland, t.d. ýmsa áhugaverða punkta um orkumál sem portúgölskum háskólastúdentum þóttu mjög áhugaverðar.
Á meðfylgjandi mynd eru Hans Hinrichsen frá Grænlandi, Öystein Försvoll frá Noregi, Stella Aguirre frá Noregi og Benedikt Barðason. Á myndina vantar fulltrúa Færeyinga, Wilhelm Petersen.