Vöðvabúnt á bekkpressumóti
Eins konar upphitunar bekkpressumót var haldið í íþróttasalnum í kjallara VMA sl. föstudag. Fjórtán keppendur höfðu skráð sig til leiks en aðeins sjö mættu þegar á hólminn var komið. Þetta var sem sagt fámennt en afar góðmennt mót sem var haldið í samstarfi við KFA – Kraftlyftingafélag Akureyrar. Og ekki skorti tilþrifin. Vonandi er þetta mót komið til að vera. Nefndur hefur verið sá möguleiki að hafa annað slíkt mót á vorönn og þá verði það í Gryfjunni.
Valgerður Dögg Jónsdóttir kennari fylgdist með mótinu sl. föstudag og tók þessar fínu myndir af vöðvatröllunum í grimmdar baráttu við lóðin.
Þessir nemendur tóku þátt: Magnús Gunnar Mánason, Sævar Karl Randversson, Þorsteinn Ægir Óttarsson og Ísak Róbertsson.
Þessir kennarar tóku þátt: Baldvin Ringsted, Ómar Kristinsson og Jóhann Björgvinsson.
Þorsteinn Ægir hafði sigur í mótinu, Sævar Karl var í öðru sæti og Baldvin Ringsted í því þriðja.
Eins og áður hefur verið greint frá hér á heimasíðunni stendur nemendum til boða að nýta sér þessa fínu aðstöðu í íþróttasalnum endurgjaldslaust á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 15-17. Að sögn Valgerðar Daggar Jónsdóttur hafa þessir opnu tímar verið nokkuð vel sóttir og verða þeir í boði út þennan mánuð.